Fótbolti

Napoli á toppinn eftir öruggan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lorenzo Insigne skoraði tvö mörk af vítapunktinum í kvöld.
Lorenzo Insigne skoraði tvö mörk af vítapunktinum í kvöld. Francesco Pecoraro/Getty Images

Napoli endurheimti toppsæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með öruggum 3-0 sigri gegn Bologna í kvöld. Seinni tvö mörk leiksins komu af vítapunktinum.

Fyrsta mark leiksins kom á 18. mínutu en þar var að verki Fabian eftir stoðsendingu frá Eljif Elmas. 

Heimamenn í Napoli fengu svo gullið tækifæri til að tvöfalda forystuna stuttu fyrir hálfleik þegar Gary Medel handlék knöttinn innan vítateigs. Lorenzo Insigne fór á punktinn og skoraði fram hjá Lukasz Skorupski.

Staðan var því 2-0 þegar flautað var til hálfleiks, en eftir rétt rúmlega klukkutíma leik fékk Napoli aðra vítaspyrnu .þegar Ibrahima Mbaye braut á Victor Osimhen. Aftur fór Lorenzo Insigna á punktinn og niðurstaðan varð sú sama og í fyrra skiptið.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og lokatölur urðu því 3-0. Napoli endurheimtir toppsæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með sigrinum, en liðið er með 28 stig eftir tíu leiki, líkt og AC Milan en með betri markatölu.

Bologna hefur náð í 12 stig í fyrstu tíu leikjum sínum og situr í 12. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×