Erlent

Kjarn­orku­samninga­við­ræður hefjist aftur fyrir nóvember­lok

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ebrahim Raisi, forseti Íran, er sagður setja hörð skilyrði fyrir nýjum kjarnorkusamningi.
Ebrahim Raisi, forseti Íran, er sagður setja hörð skilyrði fyrir nýjum kjarnorkusamningi. Getty/Majid Saeedi

Samningaviðræður um endurlífgun kjarnorkusamnings frá árinu 2015 milli Íran og sex annarra stórvelda munu hefjast aftur fyrir nóvemberlok. Þetta sagði helsti samningarmaður Íran í gær. 

Íran hefur nær alveg hundsað skilyrði samningsins, sem gerður var árið 2015 milli Íran, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Kína, Rússlands og Þýskalands. Bandaríkin sögðu sig einhliða úr samningnum árið 2018 þegar Donald Trum var Bandaríkjaforseti og leiddi það til mikilla deilna millli Bandaríkjanna og Íran. Bandaríkin settu þá harðar viðskiptaþvinganir á Íran sem hafa skekið efnahag landsins.

Samningaviðræður milli yfirvalda í Tehran og ríkjanna sex hófust af alvöru í apríl en voru settar á bið eftir að Ebrahim Raisi var kjörinn forseti Íran í júní. Raisi er sagður mikill harðlínumaður og gert ráð fyrir að kröfur hans verði strangar fyrir endurlífgun samningsins. Markmið hans sé að með samningnum verði milliríkjasamband Írans og Bandaríkjanna fært aftur í fyrra horf.

Frá því að Trump felldi samninginn úr gildi sín megin hafa Íranir hægt og bítandi aukið úranauðgun sína, tekið í notkun betri búnað til vinnslu efnisins og auðgað úran af þeirri gerð sem hægt er að nota í kjarnorkuvopn. 

Undanfarna mánuði hafa vestræn ríki beitt Íran miklum þrýstingi um að endurlífga viðræðurnar og varað við að setjist ríkið ekki að samningsborðinu gæti það orðið til þess að enginn samningur verði gerður. 

Samningsaðilara Tehran og Washington hafa deilt mikið um skilyrði sem setja eigi á ríkin. Aðaldeilumálin hafa verið hversu harðar takmarkanir eigi að gilda um úranauðgun Íran og hvaða viðskiptaþvinganir yfirvöld í Washington muni aflétta. 


Tengdar fréttir

Íranir halda áfram að auðga úran

Stjórnvöld í Teheran halda áfram að bæta í forða sinn af auðguðu úrani sem hægt væri að nota til framleiðslu á kjarnavopnum, að sögn Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar (IAEA). Eftirlitsmenn hennar hafa átt erfitt um vik að  fylgjast með þróun mála í Íran á þessu ári.

Nýr forseti sór embættiseið í Íran

Harðlínuklerkurinn Ebrahim Raisi sór embættiseið sem nýr forseti Írans í dag. Hann tekur við embættinu af Hassan Rouhani sem þótti hófsamur á íranskan mælikvarða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×