Erlent

Íranir halda áfram að auðga úran

Kjartan Kjartansson skrifar
Fáni Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar í Vín.
Fáni Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar í Vín. AP/Lisa Leutner

Stjórnvöld í Teheran halda áfram að bæta í forða sinn af auðguðu úrani sem hægt væri að nota til framleiðslu á kjarnavopnum, að sögn Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar (IAEA). Eftirlitsmenn hennar hafa átt erfitt um vik að  fylgjast með þróun mála í Íran á þessu ári.

Stofnun áætlar nú að írönsk stjórnvöld búi yfir meira en tífalt því magni af auðguðu úrani sem þeim er heimilt samkvæmt kjarnorkusamningnum sem þau gerðu við heimsveldin árið 2015. Íranir héldu áfram auðguninni eftir að Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, dró Bandaríkin út úr samkomulaginu árið 2018.

Í leynilegri ársfjórðungsskýrslu IAEA til aðildarríkja sinna í dag kom einnig fram að eftirlit með auðgun úrans í Íran hafi verið verulega heft frá því að írönsk stjórnvöld neituðu að veita eftirlitsmönnum stofnunarinnar aðgang að vöktunarbúnaði í landinu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Huga þurfi að vöktunarbúnaðinum á að minnsta kosti þriggja mánaða fresti. Geta stofnunarinnar til þess að fylgjast með kjarnorkuumsvifum Írana fari því dvínandi með tímanum og sú þróun haldi áfram nema að Íranir vendi kvæði sínu í kross.

Rafael Mariano Grossi, framkvæmdastjóri IAEA, segist tilbúinn að fara til Íran til að ræða við nýkjörna ríkisstjórn landsins um framhaldið.


Tengdar fréttir

Vita ekkert um auðgun úrans í Íran frá því í febrúar

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) segist ekki hafa fengið upplýsingar um auðgun Úrans í Íran frá 23. febrúar. Þá hófu yfirvöld í Íran að takmarka aðgengi eftirlitsaðila að kjarnorkurannsóknarstöðvum sínum en þar eru Íranar að auðga úran meira en þeir hafa gert hingað til.

Úranauðgun Íran hafin

Yfirvöld í Íran segja 20 prósenta úranauðgun vera hafna innan landamæra ríkisins. IRNA fréttaveitan sem er í eigu ríkisins segir að Hassan Rouhani, forseti, hafi gefið skipunina í dag. Auðgunin fer fram í leynilegu neðanjarðarbyrgi sem kallast Fordo.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.