Fótbolti

Brasilía og Argentína taka ekki þátt ef HM verður á tveggja ára fresti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimsmeistaramót án Brasilíu og Argentínu yrði vart svipur að sjón.
Heimsmeistaramót án Brasilíu og Argentínu yrði vart svipur að sjón. getty/Andre Borges

Brasilía, Argentína og hinar átta þjóðirnar sem mynda CONMEBOL, knattspyrnusamband Suður-Ameríku, leggjast alfarið gegn því að HM verði haldið á tveggja ára fresti og ætla ekki að taka þátt ef sú breyting verður að veruleika.

FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, skoðar nú hvort gerlegt sé að halda HM á tveggja ára fresti. Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, leiðir þá vinnu.

COMNEBOL fundaði í Paragvæ í gær og það er samróma álit þjóðanna sem skipa sambandið að þau muni ekki samþykkja HM á tveggja ára fresti.

„Það eru engar ástæður, kostir eða réttlæting fyrir þessari tillögu FIFA. Vegna þess munu þær tíu þjóðir sem skipa COMNEBOL ekki taka þátt á HM ef mótið verður á tveggja ára fresti. Með þessum fyrirætlunum er bakinu snúið við næstum því hundrað ára fótboltahefð og sögu eins merkilegasta íþróttaviðburðar heimsins hafnað,“ segir í yfirlýsingu COMNEBOL.

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, er einnig mótfallið hugmyndinni um HM á tveggja ára fresti og sömu sögu er að segja af Alþjóða ólympíunefndinni.

HM hefur verið haldið á fjögurra ára fresti síðan mótið var fyrst haldið í Úrúgvæ 1930. Lið frá Suður-Ameríku hafa níu sinnum orðið heimsmeistarar, Brasilía fimm sinnum og Argentína og Úrúgvæ tvisvar sinnum hvor þjóð.


Tengdar fréttir

„Mjög vont fyrir okkur ef að þetta færi í gegn“

„Ég tel að það fari algjörlega gegn hagsmunum íslenskrar knattspyrnu,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, um hugmyndir forkólfa FIFA um að halda HM kvenna og karla í fótbolta annað hvert ár.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.