Fótbolti

Fyrrum leik­maður Aftur­eldingar byggir fyrsta leik­vanginn í eigu kvenna­liðs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittany Matthews með unnusta sínum Patrick Mahomes sem spilar með Kansas City Chiefs í NFL-deildinni og er einn sá launahæsti í heimi.
Brittany Matthews með unnusta sínum Patrick Mahomes sem spilar með Kansas City Chiefs í NFL-deildinni og er einn sá launahæsti í heimi. Getty/Rob Carr

Kvennalið í Bandaríkjunum hafa hingað til fengið inni á leikvöngum annarra íþróttaliða en í Kansas City verður þetta öðruvísi í framtíðinni.

Eigendur Kansas City liðsins í bandarísku NWSL kvennadeildinni hafa tilkynnt að þeir ætli að byggja nýjan leikvang fyrir kvennaliðið sitt.

Einn af eigendum liðsins er Brittany Matthews, fyrrum leikmaður Aftureldingar í Mosfellsbæ og unnusta Patrick Mahomes, stórstjörnu NFL liðsins Kansas City Chiefs.

Hún ásamt hinum eigendunum Angie Long og Chris Long tilkynntu í gær plön sín um að byggja nýja ellefu þúsund manna leikvang sem mun kosta sjötíu milljónir Bandaríkjadala eða níu milljarða íslenskra króna.

Brittany Matthews spilaði með Aftureldingu sumarið 2017 og skoraði þá 2 mörk í 5 leikjum í 2. deildinni. Meðal liðsfélaga hennar voru þær Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir sem báðar spiluðu með íslenska A-landsliðinu í sigrinum á Kýpur í gærkvöldi.

Nú hefur Brittany lagt skóna á hilluna en einbeitir sér meðal annars að því að byggja upp kvennafótboltalið í borginni sem hún býr.

Framkvæmdir munu hefjast næsta vor eða næsta sumar og það er stefnt að því að klára leikvanginn fyrir árið 2024.

Félagið hafði áður tilkynnt að það ætlaði að byggja fimmtán milljón dollara æfingasvæði í útborg Kansas City sem heitir Riverside.

Nýi leikvangurinn mun rísa á bökkum Missouri árinnar nálægt miðbæ Kansas City.

Kansas City er að byrja sitt fyrsta tímabil og mun byrja á því að spila heimaleiki sína á Legends Field leikvanginum í Kansas City sem er aðallega notaður sem hafnarboltavöllur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.