Fótbolti

Skipti um nafn áður en hún gekk af velli í 315. og síðasta landsleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carli Lloyd veifar til áhorfenda í síðasta landsleik sínum í nótt.
Carli Lloyd veifar til áhorfenda í síðasta landsleik sínum í nótt. AP/Andy Clayton-King

Bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta kvaddi eina af sínum stærstu goðsögnum í nótt þegar Carli Lloyd spilaði sinn síðasta landsleik í 6-0 sigri á Suður-Kóreu.

Hin 39 ára gamla Lloyd hafði tilkynnt það eftir Ólympíuleikana í sumar að hún myndi leggja landsliðsskóna á hilluna í loka þessa árs.

Bandaríska liðið spilaði í raun fjóra kveðjuleiki fyrir Carli Lloyd en sá síðasti af þeim var á Allianz Field í St. Paul í Minnesota í nótt.

Hápunkturinn á ferli Lloyd var þegar hún skoraði þrennu á fyrstu sextán mínútunum í úrslitaleik HM 2015 en hún varð bæði heims- og Ólympíumeistari tvisvar sinnum. Hún varð líka fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að skora á fjórum Ólympíuleikum.

Lloyd skoraði 134 mörk fyrir bandaríska landsliðið en aðeins tvær konur hafa skorað fleiri mörk. Leikurinn í gær var númer 315.

„Þetta er tilfinningarík stund. Ég er samt svo sátt með þessa ákvörðun að ég finn bara fyrir gleði og hamingju. Þetta er búið að vera stórkostlegt ferðalag og ég gat allt mitt í þetta. Nú get ég gengið inn í næsta kafla í mínu lífi,“ sagði Carli Lloyd og það gerði hún líka með sérstökum hætti þegar hún fór af velli.

Lloyd var í byrjunarliðinu en var tekin af velli á 66. mínútu leiksins við mikið lófatak í stúkunni. Hún faðmaði liðsfélaga sína, tók af sér skóna, lét Megan Rapinoe fá fyrirliðabandið og endaði svo á mjög sérstakan hátt.

Carli er ekki lengur Carli Lloyd heldur er hún búin að skipta um nafn. Til marks um það þá fór hún úr búningnum sínum með Lloyd nafninu og á bak við var hún í alveg eins búningi sem á stóð „Hollins“ en hún hefur nú tekið upp ættarnafn eiginmanns síns Brian Hollins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×