Innlent

Gætu séð til lands í næstu eða þarnæstu viku

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra segir að flokkarnir þrír sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum gætu farið að sjá til lands í næstu eða þarnæstu viku. Búið er að setja niður texta um einstaka málaflokka en heildarmyndin liggur ekki fyrir.

Leiðtogar Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins funduðu í gær um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf.

„Þetta gengur alveg eðlilega finnst mér og skref fyrir skref erum við að komast í gegnum þau atriði sem þarf að ræða,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra.Vísir/Vilhelm

Eru þið farin að leggja drög að stjórnarsáttmála?

„Útlínur að einstaka málaflokkum eru að teiknast upp, en þetta er ekki búið fyrr en það er búið.“

Hvenær sérðu fyrir þér að þið getið farið að kynna stefnu ríkisstjórnarinnar?

„Ég veit það ekki alveg, það er best að segja sem minnst um það.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir leiðtogana fara yfir ólíka málaflokka en næsti fundur verður á morgun.

„Við höfum verið að setja texta um einstaka málaflokka en samt ekki þannig að það sé komin heildarmynd á það,“ sagði Katrín Jakobsdóttir að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Það gengur ágætlega hjá okkur og reikna með að við getum farið að sjá til lands í næstu eða þar næstu viku,“ sagði Katrín.

Hún sagði flokkana þrjá verða að koma sér saman um hversu metnaðarfullir þeir vilja vera þegar kemur að markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„En í því þarf líka að felast mjög einbeitt skuldbinding um að ná mjög metnaðarfullum markmiðum um samdrátt í losun. Þetta er risastórt verkefni þar sem Ísland hefur alla burði að vera í forystuhlutverki á alþjóðavettvangi og standa við skuldbindingar sínar og gott betur. Við leggjum mikla áherslu á þessi mál í stjórnarsáttmálanum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.