Fótbolti

Beckham sagður hafa fengið 26 milljarða fyrir að vera andlit HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham er einn vinsælasti knattspyrnumaður sögunnar og er ætlað að bæta ímynd HM í Katar.
David Beckham er einn vinsælasti knattspyrnumaður sögunnar og er ætlað að bæta ímynd HM í Katar. Getty/Samir Hussein

David Beckham verður andlit hins umdeilda heimsmeistaramóts í fótbolta í Katar sem fer fram eftir ár. Það kostaði hins vegar sitt að frá þennan fyrrum fyrirliða enska landsliðsins og leikmann Manchester United og Real Madrid um borð.

Alþjóða knattspyrnusambandið ákvað á sínum tíma að leyfa Katar að fá heimsmeistaramótið 2022 og sú ákvörðun þýddi á endanum að færa þurfti mótið frá funheitum sumarmánuðum í eyðimörkinni inn á veturinn svo væri hreinlega líft fyrir stuðningsmenn og aðra að vera í Katar.

Þessi ákvörðun FIFA hefur verið gagnrýnd út um allan heim og þá hefur einnig verið mikið fjallað um ómanneskjulega aðstæður verkafólks við uppbyggingu leikvanga keppninnar. Staða mannréttinda í olíuríkinu er líka ámælisferð.

Katarbúar vita að þeir þurfa að bæta ímynd keppninnar og stórt skref var að ráða David Beckham sem sendiherra Katar og andlit heimsmeistarakeppninnar.

Beckham hefur samt ekki sloppið við gagnrýni fyrir þetta samkomulag og ekki síst eftir að fréttist að hann hafi skrifað undir tíu ára samning sem gefi honum samtals 150 milljónir punda eða meira en 26,7 milljarða króna.

Beckham hafði flogið til Katar og fengið að sjá hvernig allt lítur út nú þegar rétt rúmir tólf mánuðir eru í að keppnin hefjist. Þar á hann að fara fengið að vita að allt gangi mjög vel sem og meira frjálsræði sé nú í landinu ekki hvað varðar stöðu samkynhneigða og kvenna. Í yfirlýsingu mótshaldara er sagt að Beckham trúi því að fyrsta heimsmeistarakeppni í Arabaríki geti haft jákvæðar breytingar í för með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×