Enski boltinn

„Líður ekki of illa með að segja að United þurfi betri stjóra“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það var skiljanlega þungt yfir Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í gær.
Það var skiljanlega þungt yfir Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í gær. getty/Martin Rickett

Jamie Carragher segir augljóst að Manchester United þurfi betri knattspyrnustjóra en Ole Gunnar Solskjær.

Gamla liðið hans Carraghers, Liverpool, rúllaði yfir United, 0-5, á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í gær og pressan á Solskjær hefur sennilega ekki verið meiri síðan hann tók við Rauðu djöflunum í árslok 2018.

Í Monday Night Football á Sky Sports í síðustu viku sagði Carragher að Solskjær væri ekki nógu góður fyrir United. Og hann endurtók það eftir leikinn í gær. 

„Ég var ekki að reyna að vera gagnrýninn á Solskjær. Hann hefur gert góða hluti hingað til. En ef United ætlar að keppa við [Jürgen] Klopp, [Pep] Guardiola og [Thomas] Tuchel, Liverpool, Manchester City og Chelsea þurfa þeir betri stjóra,“ sagði Carragher.

„Mér er illa við að stjórar eigi að vera reknir en þegar við tölum um United sem lið finnst okkur í lagi að segja að Fred sé ekki nógu góður, [Scott] McTominay sé ekki nógu góður og þeir þurfi nýjan miðjumann. Mér líður ekki of illa með að segja að United þurfi betri stjóra. Solskjær er ekki stjóri fyrir United þegar þú vilt taka næsta skref. Og Solskjær verður aldrei Klopp, Guardiola eða Tuchel.“

Eftir stórtapið í gær er United í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×