Fótbolti

Zlatan sá fjórði á fimmtugsaldri til að skora í Serie A

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Flest er nú fertugum fært.
Flest er nú fertugum fært. vísir/Getty

Sænska goðsögnin Zlatan Ibrahimovic er hvergi af baki dottinn þrátt fyrir að vera kominn á fimmtugsaldurinn.

 Þessi magnaði markaskorari skaut AC Milan á topp ítölsku úrvalsdeildarinnar í kvöld þegar hann skoraði fjórða mark liðsins í 2-4 sigri á Bologna.

Zlatan varð reyndar einnig fyrir því óláni að skora sjálfsmark í leiknum.

Þann 3.október síðastliðinn fagnaði kappinn fertugsafmæli sínu og var þetta fyrsta mark hans síðan en hann hefur skorað alls tvö mörk á leiktíðinni til þessa en þetta var aðeins þriðji leikur kappans á tímabilinu.

Með þessu varð Zlatan fjórði leikmaðurinn til að skora mark í ítölsku úrvalsdeildinni eftir fertugt. Honum vantar þó enn eitt ár til að eigna sér metið sem elsti markaskorari í sögu deildarinnar því Alessandro Costacurta, fyrrum liðsfélagi Zlatan hjá AC Milan, var nýorðinn 41 árs þegar hann skoraði sitt síðasta mark fyrir AC Milan í ítölsku úrvalsdeildinni.

Zlatan fæddist í Malmö í Svíþjóð árið 1981 og hefur átt algjörlega stórkostlegan feril sem knattspyrnumaður. 

Síðan hann gekk aftur í raðir AC Milan árið 2019 hefur hann skorað 30 mörk í 51 leik og alls ekki útilokað að hann muni halda áfram að raða inn mörkum í ítalska boltanum í einhver tímabil í viðbót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×