Fótbolti

Fyrir­liðinn um ó­vænt mark sitt: „Alltaf gaman að skora en ég er bara á­nægð með að við setjum fjögur“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnhildur Yrsa sýndi lipra takta á vellinum í kvöld.
Gunnhildur Yrsa sýndi lipra takta á vellinum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

„Mjög stolt, þetta var mjög mikilvægur leikur og við vissum að Tékkland var með sterkt og vel spilandi lið. Höldum hreinu og skorum fjögur svo ég gæti ekki verið sáttari,“ sagði fyrirliði Íslands, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, að loknum fræknum sigri Íslands í kvöld.

„Vorum með sjálfstraust, vorum þéttar fyrir, vissum að þær vildu spila boltanum. Vorum þéttar milli lína, fastar fyrir og vissum að við þyrftum að skora. Það er erfitt þegar staðan er bara 1-0, þá getur allt gerst en um leið og við fengum seinna markið fór þetta aðeins rúlla og ég bara mjög ánægð með hópinn og allt liðið. Þetta var frábær sigur.“

„Alltaf gaman að skora en ég er bara ánægð með að við setjum fjögur, markatalan gæti talið í þessu. Það er alltaf mikilvægt að skora mörk. Ég er alltaf í vörninni svo það er bara gaman að halda hreinu og eins og ég sagði er ég bara mjög ánægð með þessi þrjú stig.“

„Ég held að við séum allar vanar því að spila í þessum kulda og þessari rigningu. Við höfum bara gaman að því. Auðvitað væri gaman að hafa sól en það munar engu. Veður er bara veður, það eru bæði lið að spila í þessu veðri og það hefur engin áhrif,“ sagði fyrirliðinn um veðrið í Laugardalnum í kvöld.

„Við erum bara ekkert þannig séð byrjuð að skipuleggja okkur fyrir það, vorum bara að einbeita okkur að Tékka leiknum. Við fögnum sigrinum í dag og einbeitum okkur svo að Kýpur. Ætlum okkur þrjú stig þar líka.“

„Ég er eiginlega mest ánægð því Steini (Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari) var að gera grín að mér á æfingu í gær því þá var ég ekki að setja hann en ég náði að setja hann í dag og svara fyrir mig,“ sagði landsliðsfyrirliðinn glottandi að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.