Erlent

Svindl­brigslari á­kærður fyrir að skila at­kvæði látinnar eigin­konu

Þorgils Jónsson skrifar
Frá kjörstað í Las Vegas. Maður einn í Nevada-ríki hefur verið ákærður fyrir að senda inn kjörseðil í nafni látinnar eiginkonu sinnar. Hann hafði áður vakið athygli á að atkvæðinu hafði verið skilað og þóttist ekki kannast við neitt.
Frá kjörstað í Las Vegas. Maður einn í Nevada-ríki hefur verið ákærður fyrir að senda inn kjörseðil í nafni látinnar eiginkonu sinnar. Hann hafði áður vakið athygli á að atkvæðinu hafði verið skilað og þóttist ekki kannast við neitt.

Bandaríkjamaður á miðjum aldri, búsettur í Nevada, hefur verið ákærður fyrir kosningasvindl í síðustu forsetakosningum. Hann er talinn hafa sent inn utankjörstaðaratkvæði í nafni konu sinnar, sem lést árið 2017.

Þetta myndi vart heyra til almennra tíðinda ef ekki væri fyrir þá forsögu að umræddur maður, Donald Hartle að nafni, er repúblikani og steig sjálfur fram eftir kosningar og benti á að kosið hefði verið í nafni konu hans. Þótti honum það til merkis um að fréttaflutningur ýmissa miðla um víðtækt kosningamisferli gæti átt við rök að styðjast. Frá þessu segir á vef Newsweek.

Hann sagði að kjörseðill eiginkonunnar hafi aldrei borist heim til þeirra og hann grunaði ekki hvernig meintir svindlarar hefðu komist yfir gögnin.

„Það setur að manni óhug, svo ég segi eins og mér finnst“ sagði Hartle þá. „Ég skil ekki hvernig þetta gerist, en þetta styður við margt að því sem maður hefur verið að heyra í fjölmiðlum, um hvað er mögulegt í þessum efnum og nú velti ég bara fyrir mér hversu djúpstætt þetta er.“


Vararíkisstjóri Texasríkis, Repúblikaninn Dan Patrick, tók Trump forseta á orðinu og lofaði hverjum þeim sem benti á tilfelli um kosningasvindl, peningaverðlaun upp á 25.000 dali hið minnsta.

„Ég styð Trump forseta í viðleitni hans til að fletta ofan af kosningasvindli í forsetakosningunum og ganga úr skugga um að öll lögleg atkvæði séu talin og öllum ólöglegum vísað frá“ sagði hann í tísti rétt eftir kosningarnar.

Nú segir frá í New York Times, tæpu ári síðar, að Patrick hafi þurft að punga út einni slíkri þóknun, en ekki til flokkssystkinis síns, heldur demókrata sem tilkynnti repúblikana einn sem var nýlega sakfelldur fyrir að skila atkvæðisseðli sonar síns til viðbótar við sitt eigið.


Ýkjur og órökstuddar ásakanir

Donald Trump tapaði fyrir Joe Biden í forsetakjörinu, en kenndi því um að Demókratar hefðu stundað kerfisbundið svindl sem hefði kostað hann sigurinn. Taldi hann upp í því sambandi ýmis ríki þar sem tæpt var á munum, þar á meðal Nevada. Hann kærði úrslit kosninganna í fjölmörgum ríkjum, en dómstólar vísuðu öllum kærum frá þar sem engin sönnungargögn voru dregin fram málinu til stuðnings.

Repúblikanaflokkurinn í Nevada stökk á mál Hartles í upphafi og benti kosningayfirvöldum á nöfn 1.506 látinna einstaklinga sem áttu að hafa greitt atkvæði í kosningunum. Við skoðun kom í ljós að allir einstaklingarnir væru sannarlega á lífi utan tíu nafna, sem könnuð voru frekar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.