Fótbolti

Mourinho eftir stórtapið í Noregi: Betra liðið með betri leikmenn vann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho horfir á leikmenn Bodø/Glimt fagna.
José Mourinho horfir á leikmenn Bodø/Glimt fagna. getty/Fabio Rossi

José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, sendi leikmönnum sínum tóninn eftir stórtapið fyrir Bodø/Glimt, 6-1, í Sambandsdeild Evrópu í gær. Hann sagði að lið Bodø/Glimt í leiknum í gær hefði einfaldlega verið betra en það sem hann tefldi fram.

Mourinho stillti ekki upp sínu sterkasta liði í gær og kvartaði yfir því að varamennirnir í leikmannahópi Roma væru ekki nógu góðir.

„Þetta voru mín mistök. Ég vildi hvíla leikmenn eftir leikinn gegn Juventus og fyrir leikinn gegn Napoli. Ég tók þessa ákvörðun og á endanum eru leikmennirnir þeirra betri en mínir leikmenn. Þeir eru með betra lið en við,“ sagði Mourinho.

„Leikurinn þróaðist í þá átt að við misstum alla stjórn á tilfinningum og öllu. Sannleikurinn er sá að betra liðið með betri leikmenn vann. Þeir eru betri en við.“

Mourinho var ekki á því að hrósa liði Bodø/Glimt of mikið eftir leikinn.

„Mér fannst ekki mikið til þeirra koma. Ég veit að þeir eru með gott lið. Við greindum þá með allri þeirri virðingu sem þeir áttu skilið. Ég vissi að þeir væru með gott lið,“ sagði Mourinho áður en hann skammaðist meira yfir varamönnunum í leikmannahópi Roma.

„Að sjálfsögðu vildi ég sjá meira frá rulluspilurunum okkar. Það skiptir máli að tapa svona stórt. Ef ég hafði einhverjar efasemdir, og þær voru ekki miklar, þá erum við með gott lið en ekki góðan hóp. Í dag spiluðum við ekki með liðið heldur hópinn og okkur var refsað.“

Þetta er í fyrsta sinn sem lið undir stjórn Mourinhos fær á sig sex mörk í leik. Þetta er jafnframt í aðeins annað sinn sem lið Mourinhos tapar með fimm marka mun. Það gerðist einnig 2010 þegar Real Madrid tapaði 5-0 fyrir Barcelona.

Tottenham er í 2. sæti C-riðils Sambandsdeildarinnar með sex stig, einu stigi á eftir Bodø/Glimt. Liðin mætast aftur í Róm 4. nóvember.

Alfons Sampsted lék allan leikinn fyrir Bodø/Glimt í gær og lagði upp þriðja mark liðsins. Hann er á sínu öðru tímabili hjá liðinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.