Innlent

Angjelin dæmdur í sextán ára fangelsi

Tryggvi Páll Tryggvason og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Angjelin Sterkaj í dómsal.
Angjelin Sterkaj í dómsal.

Angjelin Sterkaj var dæmdur í sextán ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir að hafa myrt Armando Beqirai, fjölskylduföður á fertugsaldri, með því að skjóta hann fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði um miðjan febrúar.

Til frádráttar kemur tímabilið sem hann hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 17. febrúar til dagsins í dag. Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stundu.

Ákærðu Claudia Sofia Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi voru sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.

Friðrik Smári Björgvinsson saksóknari segir niðurstöðuna í máli Angjelin í takti við kröfur ákæruvaldsins. Skoða verði niðurstöðuna í tilfelli hinna þriggja. Hann segir ekki tímabært að tjá sig um það hvort málinu verði áfrýjað. Skoða þurfi niðurstöðuna betur.

Greiðir háar miskabætur

Angjelin var dæmdur til að greiða Þórönnu Helgu Gunnarsdóttur, ekkju Armandos, fjórar milljónir króna í miskabætur, 27 milljónir vegna missis framfærslu og rúm 500 þúsund vegna útfarar. Var hann einnig dæmdur til að greiða syni þeirra Þórönnu og Armandos 7 milljónir vegna missis framfærslu og þrjár milljónir í miskabætur.

Murat Selivrada var sýknaður í málinu, hann mætti í dómsal í morgun. Til vinstri á myndinni má einnig sjá Anton Kristinn Þórarinsson, sem gaf vitnisburð í málinu.

Angjelin var dæmdur til að greiða nýfæddri dóttur þeirra þrjár milljónir króna í miskabætur og rétt tæpar átta milljónir vegna missis framfærslu. Þá hefur hann verið dæmdur til að greiða foreldrum Armandos hvoru um sig þrjár milljónir í miskabætur.

Hann var einnig dæmdur til að greiða fyrir málsóknarlaun allra verjenda og réttargæslumanns

Ákæruvaldið fór fram á að Angjelin Sterkaj, sem hefur játað að hafa orðið Armando Beqirai að bana laugardaginn 13. febrúar, yrði dæmdur í sextán til tuttugu ára fangelsi. Farið var fram á að hinir þrír meðákærðu: Murat Selivrada, Claudia Sofia Coelho Carvalho og Shpetim Qerimi yrðu dæmd hvert um sig fyrir samverknað í manndrápinu, og ef ekki fyrir hlutdeild. Lágmarksdómur fyrir slíkt eru fimm ár.

Réttargæslumaður Þórönnu Helgu Gunnarsdóttur, ekkju Armando Beqirai, tveggja barna þeirra og foreldra Armandos fór fram á tæplega 70 milljónir króna í bótagreiðslu frá sakborningum í málinu. Ýmist var um miskabótakröfur að ræða eða kröfur vegna missis á framfærslu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Dómur í Rauðagerðismálinu kveðinn upp

Uppfært klukkan 8:52:Angjelin Sterkaj hefur verið dæmdur fangelsi í 16 ár fyrir morðið á Armando Beqirai, fjölskylduföður á þrítugsaldri, sem var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði um miðjan febrúar.Ákærðu Claudia Sofia Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi eru sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×