Chelsea rúllaði yfir Malmö

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jorginho skoraði tvívegis í kvöld. Bæði mörkin komu af vítapunktinum.
Jorginho skoraði tvívegis í kvöld. Bæði mörkin komu af vítapunktinum. EPA-EFE/Neil Hall

Chelsea átti ekki í teljandi vandræðum með Malmö er liðin mættust á Brúnni í Meistaradeild Evrópu í kvöld, lokatölur 4-0 heimamönnum í vil.

Það voru rétt komnar níu mínútur á klukkuna er heimamenn fengu hornspyrnu. Boltinn barst fyrir fætur Thiago Silva sem lyfti boltanum á Andreas Christensen sem kom heimamönnum yfir með þrumuskoti.

Staðan var ekki 1-0 lengi en heimamenn fengu vítaspyrnu rúmum tíu mínútum síðar. Jorginho tók hana og brást ekki bogalistin. Staðan orðin 2-0 og þannig var hún í hálfleik. Áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks þurfti Thomas Tuchel samt að gera tvær breytingar á liði sínu.

Romelu Lukaku fór meiddur af velli á 23. mínútu og í hans stað kom Kai Havertz inn af bekknum. Á 44. mínútu fór Timo Werner svo meiddur af velli og í hans stað kom Callum Hudson-Odoi inn af bekknum.

Varamennirnir tveir bjuggu til þriðja mark Chelsea eftir aðeins þriggja mínútna leik í síðari hálfleik. Það var svo Jorginho sem bætti við fjórða markinu með öðru marki sínu af vítapunktinum í kvöld.

Staðan orðin 4-0 og reyndust það lokatölur leiksins. Í hinum leik kvöldsins skoraði Dejan Kulusevski sigurmark Juventus undir lokin er liðið sótti Zenit St. Pétursborg heim. 

Staðan í riðlinum er því þannig að Juventus á toppnum með fullt hús stiga að loknum þremur leikjum. Chelsea í öðru sæti með sex stig, Zenit er með þrjú stig og Malmö er án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira