Innlent

Fann­ey Birna hætt í Silfrinu eftir allt saman

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fanney Birna Jónsdóttir er hætt sem þáttastjórnandi í Silfrinu á RÚV. Egill Helgason sér áfram um þáttinn og munu einhverjir hlaupa í skarðið fyrir Fanneyju þar til annar verður varanlega ráðinn.
Fanney Birna Jónsdóttir er hætt sem þáttastjórnandi í Silfrinu á RÚV. Egill Helgason sér áfram um þáttinn og munu einhverjir hlaupa í skarðið fyrir Fanneyju þar til annar verður varanlega ráðinn. Vísir

Fanney Birna Jónsdóttir er hætt sem stjórnandi í umræðuþættinum Silfrinu á RÚV, sem hún hefur stjórnað ásamt Agli Helgasyni um nokkurt skeið. Þetta staðfestir Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV í samtali við fréttastofu.

Sögusagnir um að Fanney Birna hafi sagt skilið við Silfrið hafa gengið manna á milli um nokkurt skeið en talsverður tími er síðan Fanney stýrði Silfrinu. 

Greint var frá því á mbl.is þann 24. september síðastliðinn að Fanney væri hætt í Silfrinu og vísað til ágreinings um kjaramál. Skarphéðinn sagði sama dag í samtali við fréttastofu ekki rétt að Fanney væri hætt í Silfrinu.

Sjá einnig: Segir rangt að Fanney Birna hafi sagt skilið við Silfrið

„Síðast þegar við ræddum saman var ekkert frágengið í þeim efnum. Síðan þá er sú staða komin upp að hún er ekki lengur í Silfrinu og ekki útlit fyrir að hún verði í því í vetur,“ segir Skarphéðinn.

Aðspurður hvort Fanney sé hætt störfum hjá RÚV segir hann það ekki rétt.

„Það er ekkert frágengið í þeim efnum, nema það að hún er að vinna að ákveðnu verkefni hjá okkur og er meðal annars að vinna að þáttaröð fyrir RÚV. Þannig að það er ekki rétt að hún sé hætt á RÚV,“ segir Skarphéðinn.

Fanney hafi sjálf tekið þessa ákvörðun en óvíst er hvers vegna hún segir skilið við þáttinn. Egill mun sjá um þáttinn í vetur ásamt afleysingafólki.

„Það er ekkert frágengið hvort það komi einhver varanlega í staðin fyrir Fanneyju Birnu en eins og staðan er núna verður Egill ekki í öllum þáttum og það verður einhver á móti Agli, það er ekki alveg frágengið. Það verður tilfallandi fram að því að það verði ákveðið hver komi varanlega í staðinn fyrir Fanneyju,“ segir Skarphéðinn.

Ekki náðist í Fanneyju við vinnslu fréttarinnar. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.