Fótbolti

Þurfa „að­eins“ að glíma við Messi og Mbappé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neymar verður ekki með í kvöld.
Neymar verður ekki með í kvöld. EPA-EFE/YOAN VALAT

París Saint-Germain verður án Brasilíumannsins Neymar er liðið fær RB Leipzig í heimsókn í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Sá sem sér um samfélagsmiðla Leipzig-liðsins hefur grínast með að liðið þurfi þá „aðeins“ að glíma við Lionel Messi og Kylian Mbappé.

Þriðja umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu hefst í kvöld. Annað árið í röð drógust PSG og Leipzig saman í riðil, að þessu sinni í A-riðil ásamt Club Brugge og Manchester City.

Fyrir leiki kvöldsins eru PSG og Club Brugge með fjögur stig, Manchester City er með þrjú á meðan Leipzig er enn án stiga. 

Góðu fréttirnar fyrir þýska félagið er að PSG verður án stórstjörnunnar Neymars í kvöld en hann meiddist í leik með brasilíska landsliðsinu á dögunum. Slæmu fréttirnar eru þær að PSG er með lið stútfullt af hágæða leikmönnum.

„Svo við þurfum aðeins *skoðar glósur* að glíma við Messi og Mbappé,“ segir í Twitter-færslu Leipzig.

Það er þó ekki eins og þessir þrír séu einu hágæða leikmennirnir í mögnuðu liði PSG. Þar má einnig finna Evrópumeistarana Gianluigi Donnarumma og Marco Veratti. Marquinhos og fyrirliðinn Presnel Kimpembe mynda öflugt miðvarðarpar í fjarveru spænska reynsluboltans  Sergio Ramos. 

Þá geysist Achraf Hakimi upp og niður völlinn úr hægri bakverðinum á meðan spænski bolabíturinn Ander Herrera ver miðsvæðið svo leikmenn á borð við Messi og Mbappé geti leikið listir sínar.

Leikur PSG og RB Leipzig er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Hefst leikurinn klukkan 19.00. Upphitun fyrir leiki kvöldsins hefst klukkan 18.15 og þá verður farið yfir alla leiki kvöldsins í Meistaradeildarmörkunum klukkan 21.00.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×