Innlent

Páll Vil­hjálms­son sér ekkert bogið við um­deildan pistil um Helga Seljan

Jakob Bjarnar skrifar
Páll Vilhjálmsson framhaldsskólakennari skrifaði pistil á bloggsíðu sína þar sem hann telur að geðsjúkdómur sem Helgi Seljan greindi frá um helgina að hann hafi mátt eiga við staðfesti að sitthvað hafi verið bogið við fréttaflutning hans. Sigríður Dögg formaður BÍ telur pistilinn yfirgengilegan og Grímur Atlason hjá Geðhjálp segir viðhorf Páls sorgleg.
Páll Vilhjálmsson framhaldsskólakennari skrifaði pistil á bloggsíðu sína þar sem hann telur að geðsjúkdómur sem Helgi Seljan greindi frá um helgina að hann hafi mátt eiga við staðfesti að sitthvað hafi verið bogið við fréttaflutning hans. Sigríður Dögg formaður BÍ telur pistilinn yfirgengilegan og Grímur Atlason hjá Geðhjálp segir viðhorf Páls sorgleg.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands og Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar, fordæma skrif Páls Vilhjálmssonar framhaldsskólakennara við Fjölbrautarskólann í Garðabæ. Sjálfur segir Páll hugleiðingar sínar fullkomlega eðlilegar.

Óhætt er að segja að nýleg bloggfærsla Páls hafi vakið mikla athygli en hún er undir yfirskriftinni „Helgi Seljan játar sig geðveikan“. Helgi var í viðtali í spjallþættinum Vikan með Gísla Marteini á Ríkissjónvarpinu og greindi þar frá því að hann hafi þurft að leita sér hjálpar á geðdeild. Páll segir að sá sem það þurfi að gera hafi tapað áttum, hann hafi sýnt „skýr þráhyggjueinkenni“ þegar hann „skipulagði aðför að Samherja árið 2012“.

Sorgleg skrif sem dæma sig sjálf

Þá telur Páll það vítavert að andlega veikur maður fari með „víðtækt dagskrárvald á ríkisreknum fjölmiðli, RÚV. Geðveikur Helgi skipuleggur í áravís skandal hægri vinstri, skáldar ef ekki vill betur til. Sá geðveiki fær fullt umboð yfirstjórnar RÚV til að flytja áróður klæddan í búning frétta.“

Pistill Páls hefur vakið mikla athygli og hafa fjölmargir stigið fram á samfélagsmiðlum og fordæmt hann harkalega. Grímur Atlason hjá Geðhjálp segir í samtali við Vísi að pistillinn vart svaraverðan, þarna fari saman myrkur, fordómar og vanþekking.

„Við erum öll á einhverju rófi þegar kemur að geðheilsu. Lífið færir okkur ýmis verkefni sem stundum eru okkur flóknari en við getum ráðið við ein. Það er lífið. Við erum öll með geð rétt eins og við erum með hjarta.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir pistil Páls sorglegan og lýsa gamaldags viðhorfum á geðrænum áskorunum.vísir/egill

Pistill sá sem Páll Vilhjálmsson skrifaði um reynslu annars manns, sem hann þekkir þó ekki nema af afspurn, eru dæmi um lítinn skilning á mannlegu eðli og alveg ótrúlega gamaldags nálgun á geðrænum áskorunum. Sorgleg skrif sem dæma sig sem betur fer alveg sjálf. 

Samfélagið er komið miklu lengra en þetta og umburðarlyndi og skilningur hafa leyst þröngsýni og skilningsleysi af hólmi,“ 

segir Grímur.

Linnulaust ofbeldi sem Helgi hefur mátt sæta

Sigríður Dögg segir pistillinn yfirgengilegan. Fordómar sem þar birtist gegn geðsjúkdómum séu eitt og annað séu svo þær árásir og atvinnurógur sem Helgi hefur mátt sæta.

„Ég vil auðvitað ekki gera þessari fyrirlitlegu bloggfærslu þessa litla manns að aðalumfjöllunarefni en engu að síður verður að skoða hana í samhengi. Hún áframhald á árásunum og ofbeldinu sem Helgi hefur mátt þola vegna fréttaflutnings síns um Samherja undanfarin tvö ár,“ segir Sigríður Dögg.

Hún lýsir því að Helgi komi nú fram opinberlega og lýsi því hvernig hann hefur verið skaðaður, særður með þessum árásum sem voru skipulagðar; linnulausar, fyrirlitleg ofbeldisverk, að sögn Sigríðar.

„Ég velti því fyrir mér hver siðbrögð samfélagsins hefðu verið á sínum tíma, því það er langt síðan Helgi sagði frá þessu, ef hann hefði hreinlega verið skotinn. 

Í mínum huga er enginn munur á því að hann hafi verið særður líkamlega af hendi fulltrúa Samherja og því sem hann hefur þurft að þola með þessu andlega ofbeldi og árásum sem hann hefur nú lýst hvaða áhrif hafa haft. 

Sigríður Dögg er formaður Blaðamannafélags Íslands. Hún telur pistil Páls fyrir neðan allar hellur; óafsakanlegar árásir á Helga Seljan.vísir/vilhelm

Hann er særður, það er búið að taka hann úr umferð, hann getur ekki lengur starfað við fag sitt, vonandi þó bara tímabundið. En Samherja hefur tekist ætlunarverk sitt að taka þann mann úr umferð sem hefur verið öflugasti málsvari almennings með því að afhjúpa þau óheiðarlegu vinnubrögð og lögbrot sem samfélagslega mikilvægt fyrirtæki, Samherji, hefur stundað um langa hríð.“

Eitthvað það ljótasta sem sést hefur

Sigríður Dögg dregur ekki fjöður yfir að henni blöskra skrif Páls.

„Ég tel að nauðsynlegt sé að við þessu sé brugðist. Við sem stétt og blaðamannafélag sem fagfélag þurfum að segja: Nóg er komið af árásum á fjölmiðlafólk. Þessar árásir sem Helgi hefur þurft að þola eru með því ljótasta sem við höfum séð og það svíður þegar við héldum að þessu væri lokið, í vor, þegar hulunni var svipt af aðferðunum sem fyrirtækið beitti þegar því var lýst að stinga, snúa og salta í sárið, þó það komi nú ekki frá starfsmönnum Samherja heldur einhvers konar óvildarmanni Helga.“

Þá segir formaður Blaðamannafélags Íslands pistil Páls lýsa miklum ranghugmyndum um vinnubrögð blaðamanna, svo fáránlegum að það sé varla í það eyðandi orðum. En þó verði að setja niður fótinn því svo virðist sem slíkar glórulausar hugmyndir séu að einhverju leyti viðteknar.

„Fréttaflutningurinn talar fyrir sig sjálfur, þar er ekkert sem orkar tvímælis. Dylgjur um rangfærslur þar og annarleg sjónarmið ættu að dæma sig sjálfar. En það er ekki þar með sagt að við þurfum ekki að stíga fram þegar slíkt er sett fram, okkar hlutverk er meðal annars að minna á það sem rétt er og satt. Við neitum að láta svona dylgjur og rangfærslur standa án þess að við því sé brugðist. Stéttin er hætt að láta slíkt yfir sig ganga.“

Sér sjálfur ekkert athugavert við skrifin

Sjálfur getur Páll ekki séð að hann hafi farið yfir grensur, eins og sagt er.

„Nei,“ segir Páll í samtali við Vísi. Hann getur ekki séð hvað það er efnislega sem hann hefur sagt sem fari fyrir brjóstið á fólki. Hann sé þannig ekki að segja neitt nýtt. Og sé að setja það í samhengi.

„Mér finnst þetta fyllilega eðlilegt, að ræða opinbert mál á opinberum vettvangi. Það er ekki eins og ég sé að opinbera einkalíf, viðkomandi var búinn að gera það sjálfur. Á það að þýða að allir þegi og ekki megi nefna snöru í hengds manns húsi. Hvers vegna var verið að setja þetta á flot? Ef þetta er komið á flot, þá er þetta til umræðu á opinberum vettvangi.“

Páll Vilhjálmsson sér ekki að hann hafi sagt neitt efnislega sem réttlætir þau viðbrögð sem pistill hans hefur fengið.Fjölbrautaskólinn í Garðabæ

Páll segist hafa verið við störf í morgun en heyrt ávæning af hörðum viðbrögðum við pistlinum.

„Já, að fólk sé ekki alltof kátt með þetta; fyrirlitlegt og eitthvað í þá áttina. En hef ekki áttað mig á út á hvað gagnrýnin gengur?“ segir Páll og bendir á að hann hafi að einhverju leyti brugðist við í hádeginu og ritað pistil á vefsíðu sína undir fyrirsögninni „Gúgú og gaga ekki vottorð frá gagnrýni“.

Telur veikindi Helga varpa ljósi á fréttaflutning hans

Páll segir að Helgi Seljan, líkt og allir, eigi fullan rétt til einkalífs og þar með taldar eru allar upplýsingar um heilsufar.

„En hann kemur sjálfur fram í sjónvarpi á besta útsendingatíma og tilkynnir sig veikan á geði og að hann hafi lagst inn á geðdeild. Þá er hann búinn að segja að hans einkamál sé orðið opinbert. Það er ekkert ég sem vel það. Ég set þetta síðan í samhengi við gagnrýni sem ég og ýmsir aðrir hafa haft í frami hvernig hann ber sig að í opinberum störfum, eða starfi sínu sem fréttamaður,“ segir Páll og tekur til það sem hann kallar aðför að Samherja 2012, þegar húsleit var gerð hjá Samherja að kröfu Seðlabankans í kjölfar fréttaflutnings Helga. Málið reyndist tilbúningur að sögn Páls og svo nú sé Namibíu-málið eða Samherjaskjölin. Og að auki nefnir Páll dóm siðanefndar Ríkisútvarpsins sjálfs yfir Helga.

Spurður hvað honum sýnist um viðbrögðin segist hann hafa heyrt einstaka ókvæðisorð.

„En þetta er opinber einstaklingur og opinberir fjölmiðlamenn eru opinberar persónur eins og stjórnmálamenn. Málið er þar með opinbert. Og það ber að skoða í samhengi.“

Skilur ekki af hverju Helgi greinir frá veikindunum

Páll segir að ef um væri að ræða stjórnmálamann sem hefði tekið umdeilanlegar ákvarðanir og hann kæmi fram síðar og lýsti því yfir að hann hafi verið á geðdeild færu menn yfir málin. „En ekki hvað? Ég er bara að fjalla um opinber mál á opinberum vettvangi. 

Ef einhver játar sig veikan á geði að þá eigi hann að fá afslátt? Ég er einfaldlega ósammála því.“

Páll segir viðbrögðin í sjálfu sér ekki koma á óvart, Helgi og Ríkisútvarpið séu aðilar sem eru vinamargir í samfélaginu.

„Og vinna ákveðið verk sem er í þökk mjög margra sem eru áhrifamiklir í samfélaginu. Fylgja þar menningar- og pólitískri línu sem ég er ekki hluti af. Nú veit maður ekki hver hugmyndin var hjá Helga og co að opinbera þetta? Afla samúðar og ég ekki nógu samúðarfullur? Hvaða erindi á þetta? Það var ekki ég sem valdi að þetta yrði hluti af umræðunni.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.