Enski boltinn

Stuðningsmenn United undirbúa mótmæli fyrir leikinn gegn Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Manchester United mótmæltu eigendum félagsins, Glazer-fjölskyldunni, fyrir leikinn gegn Liverpool í vor.
Stuðningsmenn Manchester United mótmæltu eigendum félagsins, Glazer-fjölskyldunni, fyrir leikinn gegn Liverpool í vor. getty/Andy Barton

Manchester United er í viðbragðsstöðu vegna fyrirhugaðra mótmæla stuðningsmanna liðsins fyrir leikinn gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Fyrir leik liðanna síðasta vor réðust stuðningsmenn United inn á Old Trafford sem varð til þess að fresta þurfti leiknum.

United óttast að svipuð mótmæli séu í burðarliðnum fyrir sunnudaginn og hefur verið í sambandi við lögregluna í Manchester vegna viðbragða við fyrirhuguðum mótmælum.

Stuðningsmenn United eru margir hverjir afar óánægðir með eigendur félagsins, Glazer-fjölskylduna. Fyrirætlanir þeirra um að United tæki þátt í Ofurdeildinni lögðust afar illa í stuðningsmenn United.

Illa hefur gengið hjá United í upphafi tímabils. Á laugardaginn tapaði liðið fyrir Leicester City, 4-2. United hefur bara unnið tvo af síðustu sjö leikjum sínum í öllum keppnum.

Pressan á Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra United, hefur aukist en Glazer-fjölskyldan styður enn þétt við bakið á þeim norska.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.