Enski boltinn

Stuðningsmaðurinn sem hneig niður sagður stöðugur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andre Marriner, dómari leiksins, ræðir við lögregluþjón í stúkunni.
Andre Marriner, dómari leiksins, ræðir við lögregluþjón í stúkunni. Stu Forster/Getty Images

Óhugnalegt atvik átti sér stað í leik Newcastle og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar að stuðningsmaður Newcastle hneig niður. Stöðva þurfti leikinn um stund á meðan maðurinn fékk aðhlynningu, en nýjustu fréttir herma að líðan hans sé stöðug.

Eftir rétt rúmlega 40 mínútna leik bjuggu leikmenn Tottenham sig undir að taka hornspyrnu. Á sama tíma tók Sergio Reguilon, bakvörður Tottenham, eftir því að ekki var allt með felldu uppi í stúku.

Hann lét Andre Marriner, dómara leiksins, vita og hann stöðvaði leikinn. Andartökum seinna sást Eric Dier, varnarmaður Tottenham, taka sprettinn að sjúkrateymum liðanna, og í kjölfarið hlupu meðlimir þeirra með hjartastuðtæki í átt að stúkunni.

Andre Marriner skipaði leikmönnum að fara inn í klefa á meðan stuðningsmaðurinn fékk aðhlynningu, en hann var svo fluttur á næsta sjúkrahús.

Að lokum hélt leikurinn áfram, og gestirnir í Tottenham unnu 3-2 sigur.

Nú fyrir skemmstu barst tilkynning frá Newcastle þar sem kemur fram að líðan mannsinns sé stöðug, og að hann sýni viðbrögð.

„Félagið vill þakka stuðningsmönnunum fyrir skjót viðbrögð og að hafa vakið athygli á aðstæðum, og hrósa þeim sem framkvæmdu hjartahnoð. Ásamt því viljum við þakka læknateyminu á svæðinu sem brást hratt við og beitti nálægu hjartastuðtæki,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

„Ég sá að eitthvað slæmt hafði komið fyrir“

„Ég sá stuðningsmennina veifa og svo sá ég liggjandi mann,“ sagði Sergio Reguilon í samtali við BBC.

„Ég sá að eitthvað slæmt hafði komið fyrir. Ég horfði á dómarann og hann stoppaði leikinn. Ég held að allt sé í lagi núna.“

„Þetta var mjög skrýtið, því við fórum inn í klefa og ég var að horfa á mann liggjandi í jörðinni. Ég var stressaður af því að mér líður ekki vel að sjá svona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×