Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmivísir/tryggvi páll
Öll yfirkjörstjórnin í Norðvesturkjördæmi er með réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Vesturlandi á kæru Karls Gauta Hjaltasonar vegna endurtalningarinnar.
Rannsókninni er lokið og er málið komið til ákærusviðs. Áreiðanlegar heimildir fréttastofu herma að þeir sem hafi réttarstöðu sakbornings í málinu séu allir meðlimir yfirkjörstjórnarinnar.
Þetta vildi lögregla þó ekki staðfesta og sagðist ekkert geta tjáð sig um málið.
Málið hangir ekki yfir Inga
Meðlimir kjörstjórnarinnar eru fimm en Ingi Tryggvason er formaður hennar. Hann vill sömuleiðis ekki staðfesta það hvort hann eða yfirkjörstjórnin hafi réttarstöðu sakbornings.
„Ég ætla nú ekkert að tjá mig um þetta. Þetta mál er bara hjá lögreglu og ég gef engar upplýsingar um það,“ sagði Ingi í samtali við fréttastofu í dag. Hann bætti svo við: „Enda hef ég ekki heimildir til þess.“
Spurður hvernig honum líði núna tæpum þremur vikum eftir endurtalninguna segir hann:
„Ég get nú ekki sagt annað en að mér líði ágætlega. Bara að sinna minni vinnu, ég er ekkert að hugsa um þetta.“
Hangir þetta ekkert yfir ykkur í yfirkjörstjórninni alla daga?
„Eins og ég segi… þetta mál er úr okkar höndum. Þannig þetta hangir ekkert sérstaklega yfir mér. Við höfum ekkert um þetta mál að segja eftir þetta.“
Hin umdeilda staða sem upp er komin eftir kosningarnar og mistök við framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi var til umræðu í Pallborðinu á Vísi og Stöð 2 Vísi klukkan 14 í dag.
Hótel Borgarnes hefur afhent lögreglu upptökur úr öryggismyndavélum sínum frá því um helgina þegar talning á atkvæðum í Norðvesturkjördæmi fór fram. Þetta staðfestir framkvæmdastjóri hótelsins, sem segist sjálfur hafa horft á hluta þeirra.
Útilokað er að Alþingiskosningarnar verði dæmdar ólöglegar á landsvísu vegna meðferðar kjörgagna í Norðvesturkjördæmi að mati dósents í lögfræði. Mikilvægt sé að Alþingi rannsaki og undirbúi niðurstöðu sína að kostgæfni.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.