Fótbolti

Kostar einn milljarð evra að kaupa upp nýjan samning Pedri hjá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pedri hjá Barcelona er einn efnilegasti miðjumaður heims.
Pedri hjá Barcelona er einn efnilegasti miðjumaður heims. Getty/David Ramos

Spænski táningurinn Pedri hefur skrifað undir nýjan samning við Barcelona en félagið staðfesti samninginn í dag.

Nýr samningur við hinn átján ára gamla Pedri nær til ársins 2026 en hann kom til Katalóníufélagsins frá Las Palmas árið 2020. Gamli samningur hans átti að renna út í sumar.

Það er hægt að kaupa Pedri út úr samningnum en uppsagnarákvæðið er einn milljarður evra eða 150 milljarðar íslenskra króna.

Áður var hægt að kaupa samninginn fyrir 400 milljónir evra en sú upphæð hefur nú meira en tvöfaldast.

Þetta er nýtt met hjá félaginu en gamla metið átti samningur Antoine Griezmann sem var hægt að kaupa fyrir 800 milljónir evra.

Pedri heldur upp á nítján ára afmælið sitt í nóvember en hann hefur bara verið í fjórtán mánuði hjá Börsungum. Hann vann sér sæti í byrjunarliði liðsins í fyrra og spilaði alls 52 leiki á sínu fyrsta tímabili. Pedri var þar fastamaður á miðjunni með þeim Sergio Busquets og Frenkie de Jong.

Pedri vann sér líka sæti í spænska landsliðinu og spilaði stórt hlutverk hjá Luis Enrique á EM síðasta sumar þar sem hann var kosinn besti ungi leikmaður keppninnar. Hann vann síðan ofan á það silfurverðlaun með spænska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Pedri er eini leikmaður Barcelona í dag sem er meðal þeirra sem eru tilnefndir til Gullhnattarins og var því einn af þrjátíu bestu knattspyrnumönnum ársins að mati Ballon d'Or nefndarinnar.

Barcelona er síðan að vonast eftir því að hinir ungu strákarnir eins og Ansu Fati, Gavi og Ronald Araujo framlengi einnig sína samninga við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×