Enginn annar formaður flokks komst með tærnar þar sem Katrín hefur hælana samkvæmt könnuninni, sem fór fram dagana 27. september til 7. október og 946 tóku þátt í.

Svarendum bauðst að velja milli átta formanna: Katrínar Jakobsdóttur, Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsókarflokksins, Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, í Pírötum, Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, Þorgerðar Katrínar Gunnlaugsdóttur, formanns Viðreisnar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, og Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins.
Eins og áður segir vilja tæplega 60 prósent að Katrín verði áfram forsætisráðherra, eða 57,6 prósent. Næst á eftir henni kemur Sigurður Ingi, en 9,8 prósent svarenda vildu fá hann sem næsta forsætisráðherra. 7,6 prósent vilja Bjarna Benediktsson, 6,3 prósent vilja Þórhildi Sunnu og 5,4 prósent vilja Loga Einarsson.
Næst á eftir kemur Þorgerður Katrín, sem 5,0 prósent svarenda völdu. Þar á eftir er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, með 3,0 prósent svarenda á bak við sig, og Inga Sæland rekur lestina með 2,9 prósent.

Þetta er talsverð breyting frá fyrri skoðanakönnunum Maskínu en Katrín hefur bætt verulega við sig stuðningi. Í síðustu könnun, sem var gerð í byrjun september, sögðust 26 prósent svarenda vilja að hún héldi áfram sem forsætisráðherra. Örlitlar breytingar hafa orðið hjá öðrum leiðtogum flokkanna, mest kannski hjá Bjarna Benediktssyni en 13,3 prósent vildu að hann yrði næsti forsætisráðherra í byrjun september, en aðeins 7,6 prósent nú.