Innlent

„Jafn­rétti er á­kvörðun, en á­kvörðun sem þú fram­kvæmir ekki er bara skoðun“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sigríður Hrund er formaður FKA.
Sigríður Hrund er formaður FKA. vísir

Ómerktir gulir fánar hafa vakið athygli í Borgartúni. Fánarnir eiga að vekja athygli á stöðu jafnréttis í samfélaginu og segir formaður Félags kvenna í atvinnulífinu óskandi ef jafnrétti væri ákvörðun en ekki skoðun.

Einhverjir hafa tekið eftir gulum fánum á tveimur stöðum í Borgartúni. Fánarnir eru á vegum Félags kvenna í atvinnulífinu sem flaggar út vikuna. Tilefnið er jafnréttisvogin sem er hreyfiaflsverkefni unnið í samstarfi við forsætisráðuneytið til að minna á stöðu jafnréttis í íslensku samfélagi.

„Við erum sem sagt best í heimi í jafnrétti með nítján karlmenn og eina konu í Kauphöllinni. Það er bara Birna Einarsdóttir í Íslandsbanka sem situr þar. Og hér aðeins lengra erum við með aðra fánaborg sem staðan er 77 karlmenn og 23 konur og það er hlutfallið í efsta lagi stjórnunar,“ sagði Sigríður Hrund Pétursdóttir, formaður FKA.

Jafnréttisvogin fer fram á fimmtudaginn klukkan tvö en finna má dagskrána á vefsíðu Félags kvenna í atvinnulífinu. Sigríður Hrund segir jafnréttisþróunina ganga sorglega hægt.

„Og við erum með lög sem kveða á um að hafa 60/40 í stjórnum án viðurlaga þannig að hér er hægt að keyra yfir á rauðu án þess að hafa áhyggjur af því.“

Hún segir að vænlegt væri ef viðurlög væru við ákvæðinu.

„Já en heitast langar mig ekki að vera með kvóta. Heitast vil ég bara að við séum að taka þessa ákvörðun af því að jafnrétti er ákvörðun en ákvörðun sem þú framkvæmir ekki er bara skoðun.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×