Erlent

Af­hentu FBI ríkis­leyndar­mál í sam­loku og tyggjó­pakka

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna vegna málsins er að finna lýsingar á meintum brotum hjónanna, sem eru oft á tíðum lyginni líkastar.
Í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna vegna málsins er að finna lýsingar á meintum brotum hjónanna, sem eru oft á tíðum lyginni líkastar. Kevin Dietsch/Getty

Bandarísk hjón hafa verið handtekin og ákærð vegna gruns um njósnir og sölu á leyndarmálum í tengslum við kjarnakljúfa í kafbátum sem bandarísk yfirvöld hafa yfir að ráða. Hjónin töldu sig hafa átt í samskiptum við fulltrúa ríkisstjórnar erlends ríkis, sem var í raun útsendari bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.

Í tilkynningu sem birtist á vef bandaríska dómsmálaráðuneytisins er að finna reifun á máli hjónanna, hins 42 ára gamla Jonathan Toebbe og hinnar 45 ára gömlu Diönu Toebbe. Lýsingar á því hvernig þau báru sig að við að koma leyndarmálunum til viðsemjanda síns eru ansi skrautlegar, með tilliti til afhendingarmáta þeirra.

Jonathan er kjarnorkuverkfræðingur og starfar hjá sjóher Bandaríkjanna. Vegna starfs síns hafði hann aðgang að leynilegum gögnum sem tengdust meðal annars kjarnorkudrifnum skipum sjóhersins.

Í dómsgögnum málsins segir að Jonathan hafi, þann 1. apríl á síðasta ári, sent pakka sem stíluð var á ríkisstjórn annars ríkis en Bandaríkjanna, sem innihélt sýnishorn af upplýsingum sem hann byggi yfir, auk leiðbeininga um hvernig hægt væri að komast í samband við hann á leynilegan hátt. Í kjölfarið hafi Jonathan nýst við dulkóðaðan tölvupóst til þess að setja sig í samband við einstakling sem hann taldi vera útsendara umrædds ríkis. Hið rétta var þó að á hinum endanum var leynilegur útsendari FBI.

Afhenti gögnin í samloku og tyggjópakka

Samskiptin eru sögð hafa staðið í nokkra mánuði, uns Jonathan samþykkti að selja upplýsingarnar í skiptum fyrir tugþúsunda dala virði af rafmyntum. Fyrstu greiðsluna fékk Jonathan í júní á þessu ári, 10.000 dala virði af rafmyntum. Í kjölfarið ferðuðust hann og eiginkona hans til vestur-Virginíu, þar sem Jonathan skildi eftir SD-minniskort innan í hnetusmjörssamloku, sem viðsemjandi hans gæti síðan nálgast, á meðan eiginkona hans stóð vörð.

Eftir að hafa náð í kortið sendi FBI-útsendarinn 20.000 dala virði af rafmynt til viðbótar til Jonathans, í skiptum fyrir leiðbeiningar um hvernig hann gæti nálgast upplýsingarnar á kortinu. Þá kom í ljós að á kortinu var að finna háleynilegar upplýsingar í tengslum við kjarnakljúfa í kafbátum bandaríska sjóhersins.

Í lok ágúst afhenti Jonathan síðan annað minniskort í austurhluta Virginíu, og ákvað í það skiptið að fela það í tyggjópakka. Í skiptum fyrir 70.000 dala virði af rafmyntum fékk FBI-útsendarinn aðgang að kortinu, sem einnig innihélt upplýsingar um kjarnakljúfa í kafbátum.

Hjónin voru handtekin í gær, þegar þau höfðu ferðast á nýjan stað í Vestur-Virginíu, til þess að afhenda útsendaranum þriðja minniskortið. Þau verða leidd fyrir dómara í fyrsta sinn á þriðjudaginn kemur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×