Ótrúleg endurkoma tryggði Frökkum sæti í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar

Theo Hernandez tryggði Frökkum sigur í kvöld.
Theo Hernandez tryggði Frökkum sigur í kvöld. Laurence Griffiths/Getty Images

Yannick Carrasco kom Belgum yfir á 37. mínútu eftir stoðsendingu frá Kevin De Bruyne, en sá síðarnefndi lagði einnig upp mark fyrir Romelu Lukaku þrem mínútum síðar.

Staðan var því 2-0 þegar að flautað var til hálfleiks, en eftir rúmlega klukkutíma leik náði Karim Benzema að minnka muninn fyrir heimsmeistarana.

Frakkar sóttu stíft næstu mínútur og uppskáru fljótt þegar að Youri Tielemans virtist brjóta á Antoine Griezmann innan teigs. Dómari leiksins fór í skjáinn góða og dæmdi vítapyrnu og Kylian Mbappé skoraði af öryggi framhjá Thibaut Curtois í markinu.

Á 87. mínútu kom Romelu Lukaku boltanum í net Frakka eftir fyrirgjöf frá Yannick Carrasco, en eftir skoðun myndbandsdómara kom í ljós að Lukaku var rangstæður og markið fékk því ekki að standa. 

Aðeins þrem mínútum síðar voru Frakkar ansi nálægt því að komast í forystu þegar að aukaspyrna Paul Pogba hafnaði í þverslánni. Stuttu síðar náðu Frakkar þó að fullkomna endurkomu sína þegar að Theo Hernandez lét vaða fyrir utan teig og hnitmiðað skot hans fann fjærhornið.

Belgarnir náðu ekki að jafna metin í uppbótartíma og það eru því Frakkar sem mæta Spánverjum í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira