Fótbolti

Kristian á meðal efnilegustu leikmanna heims að mati The Guardian

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristian Nökkvi Hlynsson í leik U-21 árs landsliða Íslands og Grikklands í síðasta mánuði.
Kristian Nökkvi Hlynsson í leik U-21 árs landsliða Íslands og Grikklands í síðasta mánuði. vísir/Bára

Kristian Nökkvi Hlynsson, leikmaður Ajax, er á lista The Guardian yfir efnilegustu fótboltamenn heims.

The Guardian hefur frá árinu 2014 birt lista yfir sextíu efnilegustu fótboltamenn í heiminum. Nú er komið að leikmönnum sem eru fæddir 2004.

Í umsögn The Guardian um Kristian segir að hann búi yfir miklum leikskilningi, góðri sendingagetu og geti skorað mörk.

Kristian kom til Ajax frá Breiðabliki í ársbyrjun 2020 og hefur unnið sig hratt upp hjá félaginu. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir varalið Ajax í lok síðasta árs og er fastamaður í því í dag. Þá fékk Kristian tækifæri með aðalliði Ajax á undirbúningstímabilinu.

Mikla athygli vakti þegar Ronald de Boer, sem þjálfar hjá Ajax, líkti Kristian við Kevin De Bruyne, leikmann Englandsmeistara Manchester City og belgíska landsliðsins.

Þrátt fyrir að vera aðeins sautján ára lék Kristian með U-21 árs landsliðinu í síðasta mánuði. Í umsögn The Guardian segir að það sé til marks um það í hversu metum hann er í heimalandinu. Kristian er nú með U-19 ára landsliðinu í Slóveníu. Ísland vann 3-1 sigur á heimamönnum í undankeppni EM í gær þar sem Kristian lék allan leikinn.

Með því að smella hér má lesa umfjöllun The Guardian um sextíu efnilegustu leikmenn heims fædda 2004.

Meðal annarra leikmanna á lista The Guardian má nefna undrabarnið Youssoufa Moukoko hjá Borussia Dortmund og Gavi sem varð í gær yngsti leikmaðurinn til að spila fyrir spænska A-landsliðið.

Ísak Bergmann Jóhannesson var á lista The Guardian í fyrra, Andri Lucas Guðjohnsen 2019 og Kolbeinn Finnsson 2016
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.