Fótbolti

Segja að HM á tveggja ára fresti geti verið skaðlegt fyrir kvennafótboltann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn enska landsliðsins fagna marki gegn Luxemborg í undankeppni HM 2023. Enska deildin var ein af deildunum sem skriafði undir yfirlýsingu þess efnis að halda HM á tveggja ára fresti gæti haft skaðleg áhrif á kvennaboltann.
Leikmenn enska landsliðsins fagna marki gegn Luxemborg í undankeppni HM 2023. Enska deildin var ein af deildunum sem skriafði undir yfirlýsingu þess efnis að halda HM á tveggja ára fresti gæti haft skaðleg áhrif á kvennaboltann. Lynne Cameron - The FA/The FA via Getty Images

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, ásamt tíu evrópskum knattspyrnudeildum innan kvennafótboltans, hafa sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að ef heimsmeistaramótið karlameginn verði haldið á tveggja ára fresti, geti það verið mjög skaðlegt fyrir kvennafótboltann.

Undir yfirlýsinguna skrifuðu UEFA, félagasamtök Evrópu og deildirnar í Englandi, Danmörku, Þýskalandi, Finnlandi, Ítalíu, Hollandi, Rúmeníu, Svíþjóð og Sviss, en þar kemur einnig fram að breytingar sem þessar gætu haft gríðarleg áhrif á þróun kvennaknattspyrnunar.

Arsene Wenger, fyrrum knattspyrnustjóri Arsenal, hefur leitt verkefnið um að fjölga heimsmeistaramótum fyrir Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, en það að halda HM á tveggja ára fresti gæti þýtt að bæði yrði spilað heimsmeistaramóti karla og kvenna á sama ári.

Einnig gæti það þýtt að heimsmeistaramót karla yrði haldið á svipuðum tíma og Ólympíuleikarnir, en það er eitt stærsta mót kvennafótboltans.

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að þrátt fyrir að kvennaknattspyrna sé á mikilli uppleið, og í stöðugri þróun, sé hún ekki enn búin að ná fullum þroska. Það að halda heimsmeistaramót karla á tveggja ára fresti, geti haft í för með sér slæm áhrif á kvennafótboltann og þá þróun sem hefur átt sér stað seinustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×