Fótbolti

Jón Guðni fór meiddur af velli í tapi gegn Norrköping

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Guðni fór meiddur af velli í dag.
Jón Guðni fór meiddur af velli í dag. @Hammarbyfotboll

Landsliðsmiðvörðurinn Jón Guðni Fjóluson fór meiddur af velli er Hammarby tapaði 3-1 fyrir Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Miðvörðurinn gæti misst af landsleikjum Íslands gegn Armeníu og Liechtenstein.

Staðan var þegar orðin 1-0 fyrir Norrköping er Jón Guðni lenti í samstuði og þurfti að yfirgefa völlinn. 

Eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni virtist Jón Guðni nokkuð illa meiddur og alls óvíst hvort hann geti leikið með íslenska landsliðinu sem tekur á móti Armeníu og Liechtenstein á Laugardalsvelli í undankeppni HM síðar í þessum mánuði.

Staðan var orðin 2-0 er Ari Freyr Skúlason kom af bekk Norrköping en leiknum lauk með 3-1 sigri heimamanna. 

Með sigrinum fer Norrköping upp í 39 stig og situr nú í 4. sæti deildarinnar. Hammarby er með 34 stig í 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×