Fótbolti

Pele kominn heim eftir krabbameinsaðgerð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pele er einn frægasti og farsælasti knattspyrnumaður sögunnar.
Pele er einn frægasti og farsælasti knattspyrnumaður sögunnar. EPA-EFE/IAN LANGSDON

Brasilíska goðsögnin Pele fékk að yfirgefa sjúkrahúsið í gær þar sem hann hefur verið í næstum því einn mánuð.

Pele þurfti að láta fjarlægja æxli í ristli en hinn áttræði Pele fór í aðgerðina á Albert Einstein sjúkrahúsinu í Sao Paulo 4. september síðastliðinn.

Pele er eini leikmaðurinn í sögunni sem hefur orðið þrisvar sinnum heimsmeistari en hann skorað í tveimur úrslitaleikjum þar af tvö mörk þegar hann var aðeins sautján ára og Brasilía varð heimsmeistari í fyrsta sinn.

Pele yfirgaf gjörgæsluna eftir tíu daga frá aðgerðinni en þurfti að leggjast aftur inn sem var þá lýst sem forvarnarráðstöfun.

„Ég er svo ánægður að vera kominn aftur heim,“ skrifaði Pele í yfirlýsingu á fésbókarsíðu sinni.

„Ég vil þakka öllu starfsfólkinu á Albert Einstein sjúkrahúsinu sem gerði dvöl mína svo þægilega með mannlegum og ástúðlegum móttökum. Þið eigið einnig þakkir skyldar sem fullkomnið líf mitt með öllum þessum ástarkveðjum,“ skrifaði Pele.

Pele þarf að gangast undir lyfjameðferð en æxlið uppgötvaðist við hefðbundna læknisskoðun 31. ágúst síðastliðinn.

Fólk hefur haft áhyggjur af heilsu Pele síðustu ár og þetta var í þriðja sinn frá árinu 2015 sem hann endar inn á spítala. Fyrst var það vegna aðgerðar á blöðruhálskirtli 2015 og svo vegna þvagfærasýkingar árið 2019.

Pele er markahæsti landsliðsmaður Brasilíu frá upphafi með 77 mörk í 92 leikjum og er einn af fjórum sem hafa náð að skora í fjórum mismunandi heimsmeistarakeppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×