Á meðal leikmanna sem Soutgate valdi eru reynsluboltar á borð við Jordan Henderson og Harry Kane, í bland við yngri og reynsluminni menn eins og Fikayo Tomori, Bukayo Saka og Jadon Sancho.
Sancho, sem er 21 árs, hefur ekki átt góðu gengi að fagna síðan hann gekk til liðs við Manchester United frá Dortmund í sumar og Southgate segir að líklega eigi hann ekki skilið að vera í hópnum.
Hann segist þó hafa mikla trú á Sancho, og að hann geti hjálpa þessum unga leikmanni að bæta sig.
„Á hann [Jadon Sancho] skilið að vera í hópnum eftir frammistöðu sína síðustu vikur? Líklega ekki,“ sagði Southgate á blaðamannafundi.
„Ég vil fá smá tíma með honum til að tala við hann og hjálpa honum að bæta sig á þeirri vegferð sem hann er á hjá United. Ég vill að hann finni fyrir því að við höfum trú á honum og það eru góð skilaboð.“
Southgate hélt áfram og sagði að Sancho þyrfti smá tíma til að aðlagast ensku úrvalsdeildinni.
„Þýska deildin er allt öðruvísi. Dortmund er stór klúbbur, en Manchester United er einn sá stærsti í heimi.“
„Hann þarf aðlögunartíma, þú ert aldrei að fara að skila sömu tölum þegar kemur að mörkum og stoðsendingum hér í okkar deild, eins og þú gerðir í þýsku deildinni.“