Fótbolti

Var vallarstarfsmaður fyrir ári síðan en afgreiddi Real Madrid í vikunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastien Thill fagnar hér sigurmarki sínu fyrir Sheriff Tiraspol á móti Real Madrid á Santiago Bernabeu.
Sebastien Thill fagnar hér sigurmarki sínu fyrir Sheriff Tiraspol á móti Real Madrid á Santiago Bernabeu. EPA-EFE/JUANJO MARTIN

Ævintýrabragur er yfir óvæntustu stjörnu Meistaradeildarinnar í vikunni. Sebastien Thill tryggði sér fyrirsagnirnar út um allan heim eftir frábært sigurmark sitt á Santiago Bernabeu leikvanginum á þriðjudagskvöldið.

Thill spilar ekki aðeins fyrir lítt þekkta liðið Sheriff Tiraspol heldur kemur hann einnig frá Lúxemborg. Hann varð fyrsti leikmaður þjóðar sinnar til að skora í Meistaradeildinni.

Í gær vakti strax athygli að Thill var með húðflúr á fætinum af sjálfum sér að dreyma um Meistaradeildina. Þessi draumur hans varð að veruleika þegar hann skoraði sigurmark Sheriff Tiraspol á móti sigursælasta félaginu í sögu Meistaradeildarinnar.

Fjölmiðlamenn vildu í framhaldinu á þessu fá að vita meira um þennan 27 ára leikmann og þá kom í ljós að hann er bara nýbúinn að stíga það skref að verða atvinnumaður í fótbolta í fullu starfi.

Thill fór fyrst út í atvinnumennsku fyrir ári síðan þegar hann gekk til liðs við rússneska félagið Tambov. Hann fór þangað á láni frá félagi sínu í Lúxemborg, Progrès Niederkorn, sem lánaði hann síðan einnig til Sheriff Tiraspol í vetur.

Í viðtali CBS við Thill kom líka í ljós að Progrès Niederkorn var ekki aðeins að missa leikmann þegar hann fór frá félaginu heldur einnig vallarstarfsmann á heimavellinum.

Thill var nefnilega hálfatvinnumaður í Lúxemborg og vann á grasvelli félagsins fyrri hluta dags. Í fyrra ákvað hann að reyna fyrir sér sem atvinnumaður og nú ári síðan er hann orðinn stjarna í Meistaradeildinni.

Hér fyrir ofan má sjá spjallið við Sebastien Thill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×