Erlent

24 dánir og 48 særðir í óeirðum í fangelsi í Ekvador

Samúel Karl Ólason skrifar
Fimm fangar voru afhöfðaðir í óeirðunum.
Fimm fangar voru afhöfðaðir í óeirðunum. AP/Angel DeJesus

Minnst 24 fangar eru látnir og minnst 48 særðir eftir miklar óeirðir í fangelsi í Ekvador í gær. Þetta er í þriðja sinn á þessu ári sem óeirðir sem þessar eiga sér stað í landinu vegna baráttu glæpagengja í landinu.

Í frétt Washington Post segir að átökin byrjuðu á skothríð og sprengjukasti fanga á milli í fangelsi Guayaquil í gærmorgun. Þar hafi gengi verið að berjast um yfirráð í hluta fangelsins. Fimm þeirra sem dóu höfðu verið afhöfðaðir.

Forsvarsmenn lögreglunnar segjast hafa náð tökum á fangelsinu á nýjan leik tæpum fimm klukkustundum eftir að óeirðirnar hófust.

Tveir mánuðir eru síðan forseti Ekvador lýsti yfir neyðarástandi í fangelsiskerfi landsins. Það gerði hann eftir tvennar mannskæðar bylgjur óeirða í fangelsum landsins. Í febrúar dóu til að mynda um áttatíu fangar í átökum í þremur fangelsum landsins. Það var eftir að leiðtogi eins glæpagengja landsins var myrtur af meðlimum annars gengis.

Minnst 145 fangar hafa verið myrtir í fangelsum Ekvador á þessu ári. Rúmlega hundrað voru myrtir í fyrra. Washington Post segir ástandi fangelsiskerfis Ekvador lengi hafa varið bagalegt. Of margir fangar séu í fangelsum landsins og of fáir fangaverðir, sem nái ekki að koma í veg fyrir glæpastarfsemi innan veggja fangelsa né smygl vopna þar inn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×