Innlent

Þórir til Búdapest að bjarga flóttafólki í sjávarháska

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórir Guðmundsson er reynslumikill þegar kemur að hjálparstarfi.
Þórir Guðmundsson er reynslumikill þegar kemur að hjálparstarfi. Rauði Krossinn

Þórir Guðmundsson, fyrrverandi ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, mun næstu tvo mánuði vera í bakvarðasveit björgunarskipsins Ocean Viking, sem Rauði krossinn og samtökin SOS Mediterranee halda úti á Miðjarðarhafi. Þar segir að skipið hafi það hlutverk að bjarga flóttafólki úr sjávarháska.

Þetta kemur fram á vef Rauða krossins.

Þórir mun starfa með upplýsingateymi svæðaskrifstofu Rauða krossins í Evrópu og verður með aðsetur í Búdapest. Þórir var í tvo áratugi starfsmaður Rauða krossins og var meðal annars í áhöfn björgunarskips Alþjóða Rauða krossins á Miðjarðarhafi 2016.

„Það er virkilega ánægjulegt að geta sinnt sjálfboðastarfi og stutt við bakið á starfsmönnum Rauða krossins í Ocean Viking,“ segir Þórir. 

„Hafandi verið þarna úti á hafi veit ég vel hver aðstaða okkar fólks í skipinu er – að ekki sé talað um flóttafólkið sem hefur verið á reki í lélegum bátskænum.“

Á vef Rauða krossins kemur fram að um helgina hafi Ocean Viking bjargað 129 manns af fjórum bátum á alþjóðlegu hafsvæði undan ströndum Líbýu. Yngsti flóttamaðurinn, sem lifði af volkið í trébáti úti á Miðjarðarhafi, var 27 daga barn.

„Við hjá Rauða krossinum erum afar ánægð að Þórir Guðmundsson hafi gefið kost á sér í þetta verkefni“, segir Atli Viðar Thorstensen sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins. 

„Þórir er reynslumikill sendifulltrúi og þekkir aðstæður flóttafólks vel. Við erum að horfa upp á fleiri og fleiri sem neyðast til að leggja á flótta sem getur verið lífshættulegur. Það leggur til dæmis enginn upp í svona hættuför með 27 daga gamalt barn að gamni sínu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.