Enski boltinn

„Besti dagur lífs míns“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emile Smith Rowe fagnar marki sínu á móti Tottenham í gær.
Emile Smith Rowe fagnar marki sínu á móti Tottenham í gær. EPA-EFE/Facundo Arrizabalaga

Emile Smith Rowe var kátur eftir 3-1 sigur Arsenal á nágrönnum sínum í Tottenham í Norður-London slagnum í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Arsenal byrjaði tímabilið ekki vel en hefur nú unnið þrjá leiki í röð. Liðið fór á kostum á móti Tottenham í gær og komst í 3-0 eftir aðeins 34 mínútna leik. Arsenal er nú komið upp fyrir Tottenham í töflunni.

Hinn ungi Emile Smith Rowe átti frábæran leik í gær en hann skoraði fyrsta markið og lagði upp annað markið fyrir Piere-Emerick Aubameyang. Annar ungur strákur, Bukayo Saka, skoraði síðan þriðja markið og eftir það voru úrslitin ráðin.

Smith Rowe sagði í viðtölum eftir leikinn að hann hafi verið að upplifa æskudrauminn sinn með því að skora á móti Tottenham.

„Þetta er besti dagur lífs míns. Ég hef alltaf dreymt um að skora fyrir Arsenal á móti Tottenham fyrir framan fjölskyldu mína. Það rættist í dag og það er ekki til betri tilfinning,“ sagði Emile Smith Rowe.

Ef að það hefur eitthvað vantað upp á í leik hins unga Smith Rowe þá var það að klára betur færin sín en strákurinn segist hafa unnið markvisst í því.

„Já þetta snýst mikið um tímasetningu og ég hef verið að æfa þetta mikið á æfingum. Mér fannst þetta ganga vel hjá mér í dag og ég er rosalega ánægður með markið,“ sagði Smith Rowe.

Smith Rowe var líka ánægður með það sem knattspyrnustjórinn Mikel Arteta sagði við þá fyrir leikinn.

„Hann sagði okkur ungu strákunum að halda ró okkar. Við erum ungir og mættir í risaleik en hann hvetur okkur mikið og gefur okkur sjálfstraust,“ sagði Smith Rowe.

„Það er ekki bara stjórinn heldur einnig hinir leikmennirnir í liðinu. Þeir gefa okkur ungu guttunum mikið sjálfstraust. Það er því auðveldara fyrir okkur að stíga inn á völlinn,“ sagði Smith Rowe.

Emile Smith Rowe var þarna að skora sitt fyrsta deildamark á tímabilinu og sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni síðan að hann skoraði í tveimur leikjum í röð með þriggja daga millibili í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×