Fótbolti

Arnór kom inn á í sigri | Guðmundur og félagar töpuðu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Anór Ingvi Traustason og félagar hans í New England Revolution eru á toppi MLS-deildarinnar.
Anór Ingvi Traustason og félagar hans í New England Revolution eru á toppi MLS-deildarinnar. Fred Kfoury III/Icon Sportswire via Getty Images

Leikið var í bandarísku MLS deildinni í knattspyrnu í nótt. Arnór Ingvi Traustason og félagar hans í New England Revolution eru enn langefstir í austur deildinni eftir 2-1 sigur gegn Orlando City en Guðmundi Þórarinssyni og félögum hans í New York City FC mistókst að styrkja stöðu sína í þriðja sætinu þegar þeir töpuðu 1-0 gegn nágrönnum sínum í New York Red Bulls.

Adam Buksa kom New England Revolution í 1-0 forystu strax á níundu mínútu eftir stoðsendingu frá Gustavo Bou, áður en Daryl Dyke jafnaði metin fyrir Orlando tæpum tíu mínútum seinna.

Varnarmaður Orlando City, Rodrigo Adrian Schlegel, varð fyrir því óláni að setja boltann í sitt eigið net þegar að tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, og staðan var því 2-1 þegar að gengið var til búningsherbergja.

Orlando City fékk svo gullið tækifæri til að jafna leikinn af vítapunktinum þegar að stundarfjórðungur var til leiksloka. Nani fór á punktinn, en misnotaði spyrnuna. Loktölur urðu því 2-1.

Arnór Ingvi kom inn á sem varamaður þegar að um fimm mínútur voru til leiksloka fyrir New England Revolution sem er nú með 62 stig á toppi deildarinnar eftir 28 leiki.

Guðmundur Þórarinsson var í byrjunarliði New York City FC sem að heimsótti New York Red Bulls. Omir Fernandez skoraði eina mark leiksins stuttu fyrir hálfleik og lokatölur urðu því 1-0, New York Red Bulls í vil.

Guðmundur og félagar sitja í þriðja sæti austur deildarinnar með 39 stig eftir 26 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×