Erlent

Unnusti Petito á­kærður fyrir greiðslu­korta­svindl

Kjartan Kjartansson skrifar
Brian Laundrie sést hér á upptöku úr myndavél lögregluþjóns sem stöðvaði hann og Petito í Utah í ágúst. TIlkynning hafði borist um að parið ætti í rifrildi og að Laundrie hefði slegið Petito.
Brian Laundrie sést hér á upptöku úr myndavél lögregluþjóns sem stöðvaði hann og Petito í Utah í ágúst. TIlkynning hafði borist um að parið ætti í rifrildi og að Laundrie hefði slegið Petito. AP/lögreglan í Moab

Yfirvöld í Wyoming í Bandaríkjunum hafa gefið út ákæru á hendur unnusta Gabrielle Petito, ungrar konu sem fannst myrt þar eftir að hún hvarf á ferðalagi með honum, fyrir að svíkja út fé með greiðslukorti.

Petito, sem var 22 ára gömul, fannst látin við þjóðgarð í Wyoming á sunnudag. Ekkert hafði spurst til hennar frá því í ágúst en þá var hún á ferðalagi um Bandaríkin með Brian Laundrie, 23 ára gömlum unnusta sínum.

Laundrie sneri einn heim úr ferðalaginu 1. september en neitaði að segja fjölskyldu Petito og lögreglu hvað hefði orðið um hana. Hann hvarf sjálfur á þriðjudag í síðustu viku.

Ákæra var lögð fram á hendur Laundrie fyrir umdæmisdómstóli í Wyoming á miðvikudag. Hann er sakaður um að hafa notað debetkort og PIN-númer annarrar manneskju til þess að taka út fé eða greiða samtals meira en þúsund dollara, jafnvirði tæpra 130.000 íslenskra króna, eftir að Petito hvarf.

AP-fréttastofan segir að ekki komi fram í ákærunni hver átti greiðslukortið sem Laundrie notaði. Fulltrúi alríkislögreglunnar FBI segir ákæruna gera lögregluliði um öll Bandaríkin kleift að leita að Laundrie á meðan rannsókn á morðinu á Petito heldur áfram. Laundrie var ekki með réttarstöðu grunaðs í þeirri rannsókn áður en hann hvarf í síðustu viku en lögregla hafði mikinn áhuga á að ræða við hann.

Leit að Laundrie hélt áfram á náttúruverndarsvæði á Suður-Flórída í gær. Hann sagði foreldrum sínum að hann ætlaði að ganga einn um fenjasvæði á Carlton-náttúruverndarsvæðinu á þriðjudag í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Al­ríkis­lög­reglan leitar að unnusta Petito

Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur óskað eftir aðstoð almennings til að finna unnusta hinnar 22 ára gömlu Gabrielle Petito, sem fannst myrt í þjóðgarði í Wyoming á dögunum. Dánardómstjóri skar um það í gær að Petito hafi verið ráðinn bani.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×