Erlent

Al­ríkis­lög­reglan leitar að unnusta Petito

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alríkislögreglan leitar nú Brian Laundrie, unnusta Gabrielle Petito sem fannst myrt í þjóðgarði í Wyoming.
Alríkislögreglan leitar nú Brian Laundrie, unnusta Gabrielle Petito sem fannst myrt í þjóðgarði í Wyoming. Getty/Octavio Jones

Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur óskað eftir aðstoð almennings til að finna unnusta hinnar 22 ára gömlu Gabrielle Petito, sem fannst myrt í þjóðgarði í Wyoming á dögunum. Dánardómstjóri skar um það í gær að Petito hafi verið ráðinn bani.

Gabrielle „Gabby“ Petito hafði verið á ferðalagi með unnusta sínum, Brian Laundrie, í breyttum sendiferðabíl þegar hún hvarf í ágúst. Laundrie sneri svo einn heim úr ferðinni í byrjun september og neitaði að segja fjölskyldu Petito og lögreglu hvað hafði orðið um hana. Laundrie hefur verið saknað síðan á þriðjudaginn í síðustu viku.

Laundrie ber ekki stöðu grunaðs í málinu en hann er svokölluð „person of interest“ sem þýðir að lögregla vilji ná af honum tali vegna rannsóknar málsins.

Alríkislögreglan sagði í yfirlýsingu í dag að hún óskaði upplýsingum frá fólki sem gæti hafa hitt eða orðið vart við Petito eða Laundrie. Þá hafa þeir sem voru staddir á Spread Creek tjaldsvæðinu í Bridger-Teton þjóðgarðinum í lok ágúst verið beðnir að hafa samband við Alríkislögregluna. Sama gildi um fólk sem gæti hafa séð sendiferðabílinn þeirra.

Leit að Laundrie stendur nú yfir á Carlton náttúruverndarsvæðinu í Flórída en ekkert hefur enn fundist. Foreldrar Laundries greindu yfirvöldum frá því að hann hafi í síðustu viku ýjað að því að hann ætlaði að ganga verndarsvæðið á enda einn. Svæðið er erfitt yfirferðar, enda um 75 prósent undir vatni, það er fenjasvæði. Landverðir munu því aðstoða lögreglu við að kemba svæðið, sem er aðeins í um 20 mínútna fjarlægð frá heimili Laundrie.

Lögreglan gerði í byrjun vikunnar leit á heimili Laundrie. Fram kemur í leitarheimildinni, sem var birt í dag, að síðustu skilaboðin sem send voru úr síma Petito til móður hennar, Nicole Schmidt, hafi verið skrítin og að Schmidt hafi verið áhyggjufull eftir að hún las þau.

Skilaboðin sögðu: „Geturðu hjálpað Stan, ég fæ endalaus talskilaboð frá honum og hann hringir stanslaust í mig.“ Stan er afi Gabby en móðir hennar segir að hún hafi aldrei kallað hann þessu nafni.

Þá greindi lögreglan í Utah frá því að hún hafi þurft að hafa afskipti af parinu þann 12. ágúst. Símhringing sem barst neyðarlínunni í Utah var birt þar sem hringjandinn segir frá því að hann hafi orði vitni að pari í hávaðarifrildi. Hann hafi séð manninn, Laundrie, slá konuna, Petito. Hægt er að hlusta á símtalið í frétt Washington Post.

Þegar lögreglan kom á staðinn virtist Petito í miklu uppnámi og grátandi. Lögreglan mat það svo að Petito hafi veist að Laundrie, að hún hafi verið að slá hann, og parið var aðskilið yfir nóttina.


Tengdar fréttir

Húsleit á heimili kærasta ungu konunnar sem hvarf

Fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar gerðu húsleit á heimili unnusta Gabrielle Petito sem hvarf þegar þau voru saman á ferðalagi um Bandaríkin í sumar. Til stendur að kryfja lík sem talið er vera af Petito í dag.

Telja sig hafa fundið lík ungrar konu sem hvarf á ferðalagi með kærastanum

Bandaríska alríkislögreglan staðfesti í gær að lík Gabrielle Petito, sem var saknað eftir að hún fór í ferðalag með kærastanum þvert yfir Bandaríkin, hefði að líkindum fundist í Wyoming. Kærasta hennar er nú einnig saknað og fór umfangsmikil leit fram á náttúruverndarsvæði á Flórída um helgina. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×