Fótbolti

Jón Dagur skoraði þegar AGF fór áfram í danska bikarnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson kom AGF á bragðið í dag.
Jón Dagur Þorsteinsson kom AGF á bragðið í dag. Jan Christensen / FrontzoneSport via Getty Images

Jón Dagur Þorsteinsson og félagar hans í AGF heimsóttu C-deildarliðið BK Frem í 32-liða úrslitum danska bikarsins í dag. Jón Dagur skoraði fyrsta mark AGF þegar að liðið vann öruggan 3-0 sigur. Þá var Ágúst Eðvald Hlynsson í byrjunarliði Horsens sem sló Silkeborg úr leik í Íslendingaslag með 3-2 sigri.

Jón Dagur kom AGF yfir á 19. mínútu leiksins gegn BK Frem. Aðeins þremur mínútum seinna var staðan orðin 3-0 eftir mörk frá Dawid Kurminowski og Thomas Kristensen.

Þannig var staðan þegar að flautað var til hálfleiks, og hún breyttist ekki heldur í seinni hálfleik. AGF vann því nokkuð þægilegan 3-0 sigur og eru komnir í 16-liða úrslit.

Ögn meiri spenna var í Íslendingaslag Horsens og Silkeborg. Eins og áður segir var Ágúst Eðvald Hlynsson í byrjunarliði Horsens, en Aron Sigurðarson kom inn á sem varamaður þegar að tuttugu mínútur voru til leiksloka. Stefán Teitur Þórðarson kom inn á sem varamaður fyrir Silkeborg í hálfleik.

Sebastian Jorgensen kom gestunum í Silkeborg yfir eftir aðeins 14 mínútna leik, en mörk frá Jannik Pohl, Lirim Qamili og Alexander Ludwig á átta mínútna kafla sáu til þess að heimamenn í Horsens fóru með 3-1 forystu í hléið.

Soren Tengstedt minnkaði muninn í 3-2 á 68. mínútu fyrir Silkeborg, en nær komust gestirnir ekki. Það voru því Ágúst Eðvald og Aron, ásamt liðsfélögum sínum í Horsens, sem að fögnuðu 3-2 sigri og fara í 16-liða úrslitin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.