Fótbolti

Forseti Barcelona að missa þolinmæðina á Koeman

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólíklegt þykir að Ronald Koeman verði mikið lengur í starfi knattspyrnustjóra Barcelona.
Ólíklegt þykir að Ronald Koeman verði mikið lengur í starfi knattspyrnustjóra Barcelona. getty/Urbanandsport

Joan Laporta, forseti Barcelona, viðurkennir að hann sé að missa þolinmæðina á Ronald Koeman, knattspyrnustjóra liðsins.

Blaðamannafundur Koemans í gær var afar sérstakur. Hann settist niður, las upp yfirlýsingu og gekk svo út án þess að svara einni einustu spurningu. Laporta vissi ekki af þessum fyriráætlunum Koemans fyrr en rétt fyrir fundinn.

„Við fundum út á síðustu stundu að hann ætlaði að lesa upp yfirlýsingu. Hann þarf að mæta á blaðamannafundi en er frjálst að gera það sem hann vill á þeim. Við virðum ákvörðun hans en við og fyrirliðar liðsins fréttum af þessu á síðustu stundu,“ sagði Laporta við Sport.

Hann svaraði játandi er hann var spurður hvort þolinmæðin gagnvart Koeman væri á þrotum.

„Já, að sjálfsögðu,“ svaraði Laporta. Hann réði ekki Koeman heldur forveri hans í starfi, Josep Maria Bartomeu. Samband þeirra Koemans og Laportas er ekki gott og talið er líklegt að Hollendingurinn verði látinn fara frá Barcelona fyrr en seinna.

Barcelona mætir Cádiz í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Börsungar hafa farið rólega af stað á tímabilinu og eru með átta stig eftir fjóra leiki í spænsku deildinni og steinlágu fyrir Bayern München, 0-3, í fyrsta leik sínum í Meistaradeild Evrópu.

Í síðasta leik sínum gerði Barcelona 1-1 jafntefli við Granada. Það þótti til marks um ástandið hjá Barcelona að Koeman setti miðvörðinn Gerard Pique í fremstu víglínu á lokakafla leiksins og Börsungar dældu boltanum inn í vítateig Granada á hann og Luuk de Jong. Það skilaði allavega jöfnunarmarki en Ronald Araújo skoraði með skalla á lokamínútunni eftir sendingu frá hinum sautján ára Gavi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.