Fótbolti

Amanda: Þegar ég var komin inn á völlinn þá fór bara stressið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amanda Jacobsen Andradóttir á ferðinni með boltann í leiknum í kvöld.
Amanda Jacobsen Andradóttir á ferðinni með boltann í leiknum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Nýliðinn Amanda Jacobsen Andradóttir kom inn á sem varamaður undir lokin í kvöld í sínum fyrsta A-landsleik eftir að hafa valið Ísland fram yfir Noreg.

Amanda á íslenskan föður en norska móður og gat því spilað fyrir bæði landsliðinu. Hún spilar með norska liðinu Valerenga en hefur ákveðið að spila fyrir Ísland.

„Þetta var minn fyrsti leikur og það var gaman að fá að koma inn á völlinn í nokkrar mínútur,“ sagði Amanda Jacobsen Andradóttir í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson, eftir 2-0 tapleik á móti Hollandi í kvöld.

„Ég var smá stressuð en þegar ég var komin inn á völlinn þá fór bara stressið,“ sagði Amanda en hvernig var svo að spila fyrsta landsleikinn?

Glódís Perla Viggósdóttir óskar Amöndu til hamingju með fyrsta landsleikinn.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var mjög gaman en auðvitað svekkjandi að tapa því við ætluðum að reyna að vinna þennan leik. Það vantaði smá upp á hjá okkur að klára færin,“ sagði Amanda.

„Stelpurnar í liðinu eru búnar að taka mjög vel á móti mér og ég er mjög ánægð með þetta allt,“ sagði Amanda sem er enn bara sautján ára því hún verður ekki átján fyrr en í desember.

Næsta verkefni íslenska liðsins er í næsta mánuði og nýjasta landsliðskonan okkar vonast til að verða aftur valin.

„Vonandi fæ ég að koma aftur fljótlega,“ sagði Amanda.

Klippa: Viðtal við AmönduFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.