Erlent

Náðu sátt í máli gegn konu erindreka sem varð unglingi að bana

Kjartan Kjartansson skrifar
Charlotte Charles, móðir Harry Dunn, og Bruce Charles, stjúpfaðir hans, við dómsmálaráðuneyti Bretlands. Bresk stjórnvöld hafa ítrekað tekið upp dauða sonar þeirra við bandaríska ráðamenn.
Charlotte Charles, móðir Harry Dunn, og Bruce Charles, stjúpfaðir hans, við dómsmálaráðuneyti Bretlands. Bresk stjórnvöld hafa ítrekað tekið upp dauða sonar þeirra við bandaríska ráðamenn. Vísir/Getty

Fjölskylda Harry Dunn sem lét lífið þegar eiginkona bandarísks erindreka ók hann niður árið 2019 hefur náð sátt í einkamáli sínu gegn konunni vestanhafs. Málið gæti enn endað á borði dómstóla sem sakamál.

Anne Sacoolas, eiginkona erindreka sem starfaði við bandaríska herstöð í Northampton-skíri yfirgaf Bretland skömmu eftir að hún ók bíl sínum á Dunn sem var á mótorhjóli. Hún bar fyrir sig friðhelgi sem erlendir erindrekar njóta gegn saksókn. 

Talið er að Sacoolas hafi verið á röngum vegarhelmingi þegar hún ók á Dunn og olli dauða hans. Dunn var nítján ára gamall.

Sacoolas var ákærð í Bretlandi en bandarísk stjórnvöld neituðu að framselja hana. Lögmaður hennar sagði í fyrra að hún myndi heldur ekki snúa sjálfviljug aftur til Bretlands til að svara til saka fyrir það sem hann kallaði „hræðilegt en óviljandi“ slys.

Breska ríkisstjórnin hefur talað máli Dunn-fjölskyldunnar í málinu og ræddi Liz Truss, nýr utanríkisráðherra Bretlands, það meðal annars á fundi með Antony Blinke, bandaríska starfsbróður hennar, í gær.

Nú segir lögmaður Dunn-fjölskyldunnar að sátt hafi náðst í miskabótamáli hennar gegn Sacoolas. Reuters-fréttastofan segir að lögmaðurinn hafi ekki veitt frekari upplýsingar um efni sáttarinnar.

Mögulegt er að sakamál verði höfðað á hendur Sacoolas. Dominic Raab, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, sagði að til skoðunar væri hvort að bresk yfirvöld gætu réttað yfir Sacoolas í gegnum fjarfundartækni eða með öðrum hætti svo að fjölskylda Dunn gæti náð fram einhvers konar réttlæti vegna dauða sonar síns. 

„Fjölskyldunni finnst að hún geti nú snúið sér að sakamálinu og langþráðri rannsókn á dauða Harrys sem fylgir sakamálinu,“ hefur AP-fréttastofan eftir Radd Seiger, lögmanni Dunn-fjölskyldunnar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×