Umfjöllun: Ísland - Holland 0-2 |Evrópumeistararnir of stór biti

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Sveindís Jane Jónsdóttir fer framhjá varnarmanni Hollendinga.
Sveindís Jane Jónsdóttir fer framhjá varnarmanni Hollendinga. Vísir/Hulda Margrét

Ísland hóf undankeppni HM kvenna í fótbolta á 2-0 tapi gegn besta liði C-riðils, Evrópumeisturum Hollands, á Laugardalsvelli í kvöld.

Hollendingar gerðu 1-1 jafntefli við Tékka í fyrsta leik sínum á föstudag en afgreiddu leikinn gegn Íslandi í kvöld fagmannlega, þó að íslenska liðinu hafi gengið ágætlega að halda mögnuðum sóknarmönnum þeirra í skefjum.

Daniëlle van de Donk skoraði fyrra mark Hollands um miðjan fyrri hálfleik, eftir að Holland hafði spilað sig vel í gegnum íslensku vörnina. Seinna markið skoraði Jackie Groenen með frábæru skoti um miðjan seinni hálfleik.

Lykilleikur gegn Tékkum fram undan

Ísland átti tvær fínar tilraunir sem ógnuðu marki Hollands á lokamínútunum en sigur gestanna var fyllilega verðskuldaður.

Ísland á næst fyrir höndum algjöran lykilleik við Tékkland á heimavelli eftir mánuð, föstudagskvöldið 22. október. Fimm lið eru í riðlinum og kemst það efsta beint á HM en liðið í 2. sæti fer í umspil.

Það hefði verið frábær bónus að geta veitt Hollandi keppni um efsta sætið, og í kvöld vantaði ekki ýkja mikið upp á. Mun raunhæfari leið Íslands felst hins vegar í að slá Tékkum, Hvít-Rússum og Kýpverjum við, taka 2. sætið og fara í gegnum (reyndar flókið og erfitt) umspil til Ástralíu.

Ísland fær svo annað tækifæri gegn Hollandi ytra að ári liðnu, skömmu eftir EM, þegar bæði lið ættu að vera búinn að fóta sig betur og finna sinn takt undir stjórn þjálfara sem báðir tóku við á þessu ári.

Leikurinn í kvöld var nefnilega fyrsti mótsleikur Íslands undir stjórn Þorsteins Halldórssonar sem hefur í höndunum afar spennandi mannskap og virðist, þrátt fyrir tapið í kvöld, á réttri leið með hann.

Ísland saknaði að vísu Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og Elínar Mettu Jensen sem báðar hefðu sennilega nýst afar vel gegn þessum andstæðingi.

Agla María Albertsdóttir átti fína spretti í leiknum en tókst þó ekki að skora frekar en öðrum leikmönnum íslenska liðsins.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenska liðið náði ágætlega að halda aftur af Vivianne Miedema, einum besta framherja heims, sem skorað hafði 21 mark í síðustu 12 leikjum sínum með Arsenal og Hollandi. Það mátti þó ekki líta af henni og hún sendi snemmbúna viðvörun strax á áttundu mínútu með hættulegu skoti.

Hollenska liðið fékk fullmikinn tíma til að athafna sig við vítateig Íslands og á 23. mínútu endaði það með stuttri sendingu inn í teig og fyrra marki leiksins.

Sveindís ógnaði með sprettum og innköstum

Þrátt fyrir það var fyrri hálfleikur góður hjá íslenska liðinu og Sveindís Jane Jónsdóttir var sérstaklega hættuleg þegar hún sótti fram hægri kantinn. Liðsfélagar hennar hefðu mátt reikna oftar með því að hún kæmist framhjá Dominique Janssen og vera mættar í teiginn til að taka við sendingum frá henni. Berglind Björg Þorvaldsdóttir komst þó nálægt því að pota boltanum í netið skömmu fyrir hálfleik.

Í seinni hálfleik dró af íslenska liðinu eins og vindinum í Dalnum, en í staðinn hellirigndi. Sveindís og Agla María Albertsdóttir skiptu á köntum en það heppnaðist ekki nógu vel og í raun furðulegt að Sveindís skyldi ekki fá að sækja á Janssen allan leikinn.

Sveindís skapaði einnig hættu með löngum innköstum, og notaði handklæði sem voru um allan völl til að þurrka boltann og ná góðu taki á honum. Hún kom boltanum á Dagnýju Brynjarsdóttur sem átti ágætt skot á 62. mínútu.

Þorsteinn gerði svo sóknarsinnaðar breytingar og setti Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Svövu Rós Guðmundsdóttur inn fyrir Berglindi og Alexöndru Jóhannsdóttur. Strax í kjölfarið kom hins vegar seinna mark Hollands, glæsilegt skot af löngu færi sem lítið var hægt að gera í.

Hollenska liðið fagnar mögnuðu marki Jackie Groenen, leikmanns Manchester United, um miðjan seinni hálfleik á Laugardalsvelli í kvöld.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Amanda lék sinn fyrsta A-landsleik

Hollenska liðinu gekk vel að „svæfa“ leikinn eftir þetta en Ísland skapaði sér þó ágæt færi á síðustu mínútum leiksins. Það dugði ekki til.

Í uppbótartíma kom hin 17 ára Amanda Andradóttir inn á í sínum fyrsta A-landsleik, eftir að hafa valið Ísland fram yfir Noreg. Hún þarf reyndar að spila fleiri en þrjá A-landsleiki til að mega ekki skipta um landslið síðar á ferlinum en gæti mögulega náð því áður en árið er á enda.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.