Enski boltinn

Fékk hjálp Sterlings til að krækja í fimmtán ára

Sindri Sverrisson skrifar
Aidy Ward var umboðsmaður Raheems Sterling þegar hann var seldur frá Liverpool til Manchester City fyrir 49 milljónir punda árið 2015.
Aidy Ward var umboðsmaður Raheems Sterling þegar hann var seldur frá Liverpool til Manchester City fyrir 49 milljónir punda árið 2015. Getty/Matthew Ashton

Fyrrverandi umboðsmaður Raheems Sterling braut reglur enska knattspyrnusambandsins með því að semja við leikmenn undir 16 ára aldri. Hann fékk Sterling til að hjálpa sér.

Gögn sem BBC hefur undir höndum sýna fram á þetta. Þau sýna til að mynda að umboðsmaðurinn, Aidy Ward, hitti 15 ára strák og móður hans á veitingastað í Lundúnum og saman áttu þau myndsímtal við Sterling sem var þekktasti umbjóðandi Wards.

Ward á umboðsskrifstofuna Colossal Sports Management. Sterling fékk lítinn hluta í fyrirtækinu frá Ward en Manchester City-stjarnan skipti um umboðsmann seint á síðasta ári.

Lögfræðingar Sterlings sögðu við BBC Panorama að enski landsliðsmaðurinn teldi það sína skyldu að tala við unga og upprennandi leikmenn og að það hefði hann gert nokkrum sinnum að beiðni Wards. Hann hafi hins vegar aldrei rætt við þá um umboðsmenn eða neitt tengt fjármálum, og að hann styðji reglur enska sambandsins sem ætlaðar eru til að vernda unga leikmenn.

Samkvæmt frétt BBC eru brot Wards til rannsóknar hjá enska knattspyrnusambandinu. Ward vildi ekkert tjá sig um málið og bar fyrir sig að hann vildi ekki spilla rannsókninni.

Í þætti BBC Panorama er rætt við foreldra sjö leikmanna undir lögaldri sem Colossal umboðsskrifstofan reyndi að gera samninga við. Í tölvupóstum sem BBC hefur undir höndum má sjá lista Colossal yfir leikmenn sem fyrirtækið vildi semja við og voru sex af þeim 14 ára eða yngri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×