Mið­verðirnir gerðu gæfu­muninn er Chelsea vann ná­granna­slaginn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Thiago Silva kom Chelsea á bragðið í dag.
Thiago Silva kom Chelsea á bragðið í dag. Sebastian Frej/Getty Images

Chelsea vann 3-0 útisigur er liðið heimsótti erkifjendur sína í Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í dag. Var þetta annað 3-0 tap Tottenham í röð.

Fyrri hálfleikur var nokkuð tíðindalítill og bláklæddir gestirnir langt frá sínu besta. Þeir áttu ekki skot á markið og var staðan markalaus er Paul Tierney, dómari leiksins, flautaði til hálfleiks.

Það tók Chelsea hins vegar aðeins fjórar mínútur að komast yfir í síðari hálfleik. Þar var að verki brasilíski miðvörðurinn Thiago Silva eftir hornspyrnu Marcos Alonso.

Áfram héldu gestirnir að pressa og þegar tæplega klukkustund var liðin af leiknum geystust bláliðar í skyndisókn. Henni lauk með að varamaðurinn N´Golo Kante átti þrumuskot sem endaði í netinu eftir að hafa haft viðkomu í varnarmanni. Staðan orðin 2-0 og útlitið svart fyrir heimamenn í Tottenham.

Þeir reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en Chelsea var mikið mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik og ljóst að sigurinn yrði þeirra. Þýski miðvörðurinn Antonio Rüdiger gulltryggði sigurinn eftir mikinn atgang í vítateig Tottenham þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Lokatölur 3-0 og Chelsea því jafnt Liverpool og Manchester United á toppi deildarinnar með 13 stig að loknum fimm leikjum. Tottenham er í 7. sæti með níu stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira