Fótbolti

Gló­dís Perla um lífið hjá Bayern: Skipti úr gervi­grasliðinu yfir í grasliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er fyrir löngu komin í hóp reynslumestu leikmanna íslenska landsliðsins.
Glódís Perla Viggósdóttir er fyrir löngu komin í hóp reynslumestu leikmanna íslenska landsliðsins. vísir/vilhelm

Íslenska landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir er mjög ánægð með allar aðstæður og alla umgjörð hjá Bayern München en hún gekk til liðs við þýska stórliðið í sumar.

Glódís Perla er nú komin til Íslands til að hjálpa kvennalandsliðinu í undankeppni HM en skoraði fyrir Bayern í síðasta leik sínum fyrir landsleikjahléið.

Glódís Perla var á fjarfundi með íslenskum blaðamönnum í gær og var spurð út í lífið í München.

„Þetta er alveg næsta „level“ þarna og eitt það besta sem er í boði í dag,“ sagði Glódís Perla og hún segir að Bæjarar haldi vel utan um leiðið.

„Við erum með eigið svæði með geggjuðum grasvöllum,“ sagði Glódís Perla.

Glódís Perla spilaði með Stjörnunni áður en hún fór út en liðið fór að spilað heimaleiki sína á gervigrasi fyrst íslensku félaganna. Liðin í Svíþjóð spila líka mikið á gervigrasvöllum en þar hafði Glódís spilað undanfarin sex ár.

„Ég var alltaf í gervigrasliðinu en nú er ég búin að breyta yfir í grasliðið,“ sagði Glódís sem segir að grasvellirnir séu til mikillar fyrirmyndar. Glódís hrósar líka starfsliðinu í kringum liðið og þar sé allir þeir sérfræðingar til taks með lið þarf á að halda.

„Ég get ekki kvartað yfir neinu og þetta er bara eins og það á að vera,“ sagði Glódís.

Glódís var hins vegar ekki ákveðin að fara í fyrstu eftir að hafa heyrt slæmar sögur af kvennaliði Bayern. Hún leitaði til Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í byrjun til að fá að vita meira um þetta.

Það hefur aftur á móti komið í ljós að Bæjarar hafa gerbreytt hlutunum í kringum kvennaliðið sitt og félagið hefur ákveðið að veðja að knattspyrnukonurnar sínar sem er sérstaklega gaman þegar tvær íslenska landsliðskonur spila með liðinu.

Glódís ætlar sér að taka næsta skref hjá Bayern en hún er enn bara 26 ára gömul þrátt fyrir að hafa spilað 93 landsleiki fyrir Ísland og spilað sem atvinnumaður í sex ár. En hvað þarf hún að bæta að mati þjálfara Bayern?

„Ég á bara að verða betri í öllu, að taka næstu skref í öllum mínum leik,“ sagði Glódís en segir að þjálfarateymi Bayern vilji líka að leikmenn sínir geri það sem þær eru góðar í.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×