Erlent

Stigmagnandi spenna vegna eldflaugaæfinga á Kóreuskaga

Heimir Már Pétursson skrifar
Farþegar á lestarstöð í Sól höfuðborg Suður Kóreu horfir á frétt um eldflaugaskot Norður Kórumanna á sunnudag.
Farþegar á lestarstöð í Sól höfuðborg Suður Kóreu horfir á frétt um eldflaugaskot Norður Kórumanna á sunnudag. Chung Sung-Jun/Getty Images

Eldflaugatilraunir stjórnvalda í Norður Kóreu hafa valdið vaxandi spennu í samskiptum Kóreuríkjanna. Kínverjar, Japanir og Bandaríkjamenn hafa einnig lýst áhyggjum af þróun mála.

Norður Kóreumenn skutu tveimur langdrægum eldflaugum sem geta borið kjarnorkuvopn á loft á sunnudag. Flaugunum var skotið frá miðju landinu og flugu þær í 60 kílómetra hæð um 800 kílómetra út á Japanshaf. Þar með brutu Norður Kóreumenn gegn samþykkt Sameinuðu þjóðanna.

Nokkrum klukkustundum síðar skutu Suður Kóreumenn í fyrsta skipti nýrri tegund eldflaugar frá kafbáti og urðu þar með sjöunda þjóðin í heiminum til að búa yfir slíkri tækni. Fullyrt er að þetta eldflaugaskot hafi verið löngu fyrirhugað og það hafi ekki verið beint andsvar við eldflaugatilraunum norðanmanna. Norður Kóreumenn brugðust engu að síður við með því að skjóta skammdrægum eldflaugum á loft í dag.

Þessar tilraunir eru ekki til að bæta mikið spennuástand sem nú þegar ríkir í samskiptum asíuríkja, sérstaklega varðandi yfirráð yfir Suðurkínahafi. Katsunobu Kato utanríkisráðherra Japans hefur komið óánægju stjórnvalda í Tokyo með eldflaugatilraunir Norður Kóerumanna á framfæri.

Katsunobu Kato utanríkisráðherra Japans fordæmir eldflaugatilraunir Norður Kóreu.Tomohiro Ohsumi/Getty Images

„Japönsk stjórnvöld hafa fordæmt eldflaugaskot Norður Kóreu og komið þeim sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld þar í gegnum sendiráð okkar í Peking. Þá höfum við haft náið samráð við stjórnvöld í Bandaríkjunum og Suður Kóreu frá því eldflaugunum var skotið á loft á sunnudag,“ segir Kato.

Spennan á Kóreuskaga snertir einnig nágrannaríkin Kína og Japan. Sendimenn Bandaríkjanna, Japans og Suður Kóreu fyrir málefni Norður Kóreu funduðu í Tokyo í dag um stöðu mála og utanríkisráðherrar Kína og Suður Kóreu funduðu í Sól.

Wang Yi utanríkisráðherra Kína segir mikilvægt að stuðla að stöðugleika á Kóreuskaga.

„Við viljum auðvitað leggja okkar af mörkum til að stuðla að friði og stöðugleika á Kóreuskaga. En Norður Kórea er ekki ein um hernaðaraðgerðir á svæðinu. Fleiri ríki eiga þar hlut að máli. Þannig að allir aðilar ættu að leggjast á eitt um að koma á ný á viðræðum þeirra á milli,“ segir utanríkisráðherra Kína.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.