Fyrir­liðinn hetjan er Liver­pool hóf Meistara­deildina á sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jordan Henderson tryggði Liverpool sigurinn í kvöld.
Jordan Henderson tryggði Liverpool sigurinn í kvöld. Shaun Botterill/Getty Images

Liverpool tók á móti AC Mílan á Anfield í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Leikurinn var frábær skemmtun en glæsimark fyrirliðans Jordan Henderson sá til þess að Liverpool fór með 3-2 sigur af hólmi.

Liverpool hóf leikinn af gríðarlegum krafti og virtist ætla að kaffæra gestunum frá Mílanó í upphafi leiks. Heimamenn komust yfir strax á 9. mínútu er Trent Alexander-Arnold gaf fyrir markið og Fikayo Tomori varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Áfram hélt pressan og fengu heimamenn vítaspyrnu fjórum mínútum síðar eftir að boltinn fór í hendina á Ismaël Bennacer. Hlaut hann gult spjald fyrir. Mohamed Salaj fór á punktinn en vítaspyrna hans var vægast sagt slök og Mike Maignan varði í marki AC Milan.

Leikurinn róaðist svo er leið á fyrri hálfleik en lokamínútur hans voru hreint út sagt ótrúlegar. Ante Rebić jafnaði metin eftir fyrirgjöf Rafael Leão á 42. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar tæklaði Brahim Diaz boltann í netið eftir að skot Theo Hernandez var varið af varnarmanni.

Staðan var því 2-1 AC Milan í vil er liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Ótrúlegur viðsnúningur á skömmum tíma.

Það tók Liverpool ekki langan tíma að jafna metin í síðari hálfleik. Mo Salah bætti þá upp fyrir klúðrið en hann skoraði eftir laglegan samleik við Divock Origi á 49. mínútu. Staðan orðin 2-2 og allt í járnum.

Þegar mest á reynir er það að sjálfsögðu fyrirliðinn sem stígur upp. Það gerðist á Anfield í kvöld en Jordan Henderson kom Liverpool 3-2 yfir með glæsilegu skoti á 69. mínútu og heimamenn komnir yfir á nýjan leik.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.