Fótbolti

Segir nóg komið af sjálfsvorkunn Arnars Þórs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson ræddi atburði síðustu vikna í belgískum sjónvarpsþætti.
Arnar Þór Viðarsson ræddi atburði síðustu vikna í belgískum sjónvarpsþætti. vísir/Hulda Margrét

Lárusi Orra Sigurðssyni, fyrrverandi landsliðsmanni í fótbolta, finnst Arnar Þór Viðarsson, þjálfari karlalandsliðsins, barma sér full mikið.

Arnar var í viðtali í belgíska sjónvarpsþættinum Extra Time í fyrradag þar sem hann sagði að síðustu vikur hefðu verið þær erfiðustu á hans ferli. Mikið hefur gengið á í tengslum við karlalandsliðið og KSÍ að undanförnu.

KSÍ var gagnrýnt fyrir að hylma yfir með ofbeldisbrotum leikmanna landsliðsins og í kjölfarið sagði Guðni Bergsson af sér sem formaður sambandsins. Stjórnin fór síðan sömu leið og boðaði til aukaþings.

Í viðtalinu í Extra Time sagði Arnar að aðeins tveir úr því draumaliði sem hann teiknaði upp er hann tók við landsliðinu væru eftir og ýjaði að því að nokkrir af reynslumestu leikmönnum þess gætu lagt landsliðsskóna á hilluna vegna atburða síðustu vikna.

Lárus Orri gaf ekki mikið fyrir orð Arnars í viðtalinu og skaut nokkuð föstum skotum að sínum gamla samherja í landsliðinu á Twitter.

„Cry me a river. Erfið staða og erfitt verk­efni? Ekki spurn­ing, en er þetta ekki orðið fínt af þess­um grát­kór hjá landsliðsþjálf­ar­an­um/​yf­ir­manni knatt­spyrnu­mála. Svona er staðan í dag deal with it and get on with the job,“ skrifaði Lárus Orri á Twitter.

Lárus Orri lék 42 landsleiki og skoraði tvö mörk. Hann lék lengi sem atvinnumaður á Englandi með Stoke City og West Brom.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×