Fótbolti

Sjáðu fyrsta mark Sveins Arons fyrir Elfs­borg | Aron Elís lék allan leikinn í sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveinn Aron skoraði í kvöld.
Sveinn Aron skoraði í kvöld. @IFElfsborg1904

Alls fóru tveir Íslendingaslagir fram í sænsku og dönsku úrvalsdeildunum í fótbolta í kvöld. Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði sitt fyrsta mark í sænsku úrvalsdeildinni.

Enginn Íslendingur var í byrjunarliðum Elfsborg og Hacken er liðin mættust í sænsku úrvalsdeildinni. Sveinn Aron Guðjohnsen og Hákon Rafn Valdimarsson voru á bekknum hjá Elfsborg á meðan Valgeir Lunddal Friðriksson var á varamannabekk gestanna.

Staðan var 3-2 Elfsborg í vil þegar Sveinn Aron kom inn af bekknum á 78. mínútu. Gulltryggði hann sigur heimamanna með sínu fyrsta marki fyrir félagið er ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma.

Lokatölur 4-2 Elfsborg í vil sem er nú í 3. sæti með 36 stig eftir 18 leiki, stigi minna en topplið Djurgarden og AIK. Hacken er í 10. sæti með 22 stig.

Aron Elís Þrándarson lék allan leikinn í 2-1 sigri OB á SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Kristófer Ingi Kristinsson lék síðustu tíu mínúturnar í liði SönderjyskE.

Þegar átta umferðum er lokið er OB með 10 stig á meðan SönderjyskE er með aðeins fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×